Mikilvæg uppbyggingarverkefni Sjúkrahússins á Akureyri

Mikilvæg uppbyggingarverkefni Sjúkrahússins á Akureyri

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar

Sjúkrahúsið á Akureyri er hornsteinn í heilbrigðisþjónustu kjördæmisins – einn fjölmennasti vinnustaður landsbyggðarinnar og í senn kennslusjúkrahús, vísindastofnun og varasjúkrahús landsins. Undir skýrum merkjum sem heilsueflandi og eftirsóknarverður vinnustaður, starfa um 670 starfsmenn. Heildarvelta metnaðarfullrar og gæðavottaðrar starfsemi er um 10,2 milljarða kr. árlega.

Sjúkrahúsið veitir almenna og sérhæfða heilbrigðisþjónustu, með áherslu á bráðaþjónustu og helstu sérgreinameðferðir sem annað tveggja sérgreinasjúkrahúsa landsins. Legu- og dagdeildarými eru í dag um 140 og göngudeildarþjónusta er vaxandi þáttur starfseminnar. Má þar nefna krabbameinsþjónustu, blóðskilun og göngu- og geðdeildarþjónustu svo fátt eitt sé nefnt.

Sjúkrahúsið er kjarninn í þeim heilbrigðis- og velferðarklasa sem byggist upp á Norðurlandi. Með auknu samstarfi við aðrar heilbrigðisstofnanir og velferðarkerfið munu fjármunir nýtast betur og fagmennska eykst.

Fimm uppbyggingarverkefni

Fyrir liggja stór uppbyggingarverkefni sem þýðingarmikið er að njóti skilnings og almenns stuðnings.

1. Eitt stærsta verkefni næstu ára er bygging nýrrar legudeildarálmu þar sem skjólstæðingum sjúkrahússins og starfsfólki verður boðin nútímaleg aðstaða. Þessi áform hafa verið samþykkt af stjórnvöldum og hafa fyrstu skref í þarfagreiningu og hönnun verið stigin. Ætla má að stærð álmunnar verði allt að 10 þúsund fermetrar og kostnaður er áætlaður rúmir átta milljarðar króna. Stefnt er að verklokum árið 2026.

2. Styrkja þarf hlutverk sjúkrahússins sem miðstöð læknisfræðilegar þjónustu sjúkraflugs í landinu. Um leið og sjúkrahúsið hefur tekið þátt í uppbyggingu heilbrigðisþjónustu á landsvísu hefur sérstök áhersla verið lögð á samvinnu heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni. Þannig er sjúkrahúsið mikilvægur þáttur öflugrar byggðastefnu en gegnir einnig lykilhlutverki almannavarna. Rekin er vaktþjónusta fyrir nærsamfélag ásamt læknisfræðilegri þjónustu við sjúkraflug þar sem læknar sjúkrahússins og Heilbrigðisstofnunar Norðurlands standa vakt. Þetta hlutverk tengir saman við þjálfun sjúkraflutningamanna á Íslandi sem rekin er við sjúkrahúsið og áform um leitar- og björgunarmiðstöð Norðurslóða sem á að byggja upp hér á landi.

3. Hjartaþræðingar á Akureyri. Eðlileg krafa er að íbúum verði tryggt sem mest jafnræði í þjónustu nærsamfélags á við íbúa höfuðborgarsvæðis. Með þetta í huga stefnir sjúkrahúsið að því að taka upp hjartaþræðingar. Þegar hefur verið unnin þarfagreining sem styður það markmið að hefja þær á sjúkrahúsinu. Er skynsamleg og eðlileg krafa að þessi starfsemi verði byggð upp á Akureyri.

4. Sjúkrahúsið stefnir að því að vera í fararbroddi í þróun og notkun fjarheilbrigðisþjónustu. Í takt við nýsköpunartíma verði upplýsinga- og fjarskiptatækni nýtt til að veita þjónustu, án þess að sjúklingur og heilbrigðisstarfsmaður séu á sama stað. Þetta skilar auknum og jafnari aðgangi að heilbrigðisþjónustu. Í stað þess að sjúklingur þurfi að fara langan veg eða fagaðili ferðist stofnana á milli til að veita þjónustu, sem er bæði tímafrekt og kostnaðarsamt, er unnt með nýtingu tækni að tengja milli sjúklings og fagaðila í nærumhverfi þeirra. Þannig er heilbrigðiskerfið fært nær sjúklingi.

Dæmi um notendur slíkrar þjónustu eru skjólstæðingar dreifðari byggða og einnig þeir sem dvelja langtímum fjarri heimabyggð. Þetta dregur úr kostnaði og sparar tíma í kerfinu auk þess að valdefla starfsfólk og sjúklinga. Til lengri tíma mun slík þjónusta vega þungt til hagræðingar og kostnaðarhagkvæmni. Nauðsynlegt er að tryggja sjúkrahúsinu fjármuni til þessarar framþróunar, sérstaklega hvað varðar tæknimál, þjálfunar og innleiðingu.

5. Sjúkrahúsið á Akureyri hefur lýst metnaði sínum að verða háskólasjúkrahús. Í dag er það kennslusjúkrahús og öflug þekkingarstofnun sem leggur metnað í kennslu og rannsóknir í heilbrigðisvísindum. Kennsluhlutverkið hefur vaxið verulega undanfarin ár meðal annars með þátttöku í menntun sérnámslækna ásamt verknámi fjölda nema annarra heilbrigðisstétta. Stjórnendur hafa nú einsett sér að styrkja þetta kennsluhlutverk og auka vísindastarfsemi með það fyrir augum að öðlast viðurkenningu sem háskólasjúkrahús. Þannig yrði skapaður vettvangur sem aðlaðandi vinnustaður fyrir það heilbrigðisstarfsfólk sem hefur áhuga og metnað til vísindarannsókna. Að sama skapi þarf að slá skjaldborg um áframhaldandi uppbyggingu Háskólans á Akureyri, enda er nám þar samofið í vísindastarfsemi sjúkrahússins.

Uppbyggingaráform og framtíðarsýn um öflugt sjúkrahús á landsbyggðinni kalla eftir samstarfsvilja og stuðningi stjórnvalda, sveitarfélaga og íbúa. Von mín er og vilji að staðinn verði vörður um Sjúkrahúsið á Akureyri svo það megi áfram vera stolt okkar allra.


Höfundur er
oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó