beint flug til Færeyja

Miklar framkvæmdir á kjörtímabilinu

Miklar framkvæmdir á kjörtímabilinu

Andri Teitsson skrifar

Á þessu kjörtímabili sem er að ljúka hefur verið unnið að mörgum stórum verkefnum hjá Umhverfis- og mannvirkjaráði Akureyrarbæjar. Helst ber þar að nefna gagngera endurbyggingu á tveimur af okkar stærstu grunnskólum. Í Glerárskóla hafa B og D álmur (nyrðri álmur) samtals um 1600 fm verið endurnýjaðar frá grunni með nýjum innréttingum, gólfhita, betri hljóðvist, loftgæðum og eldvörnum svo nokkuð sé nefnt. Í Lundarskóla er að ljúka nú í sumar ennþá róttækari endurbyggingu á báðum kennsluálmum og tengibyggingu sem eru á tveimur hæðum og samtals um 4000 fm. Gluggar á neðri hæð sem snúa að inngarði hafa verið síkkaðir og eru þau rými nú orðin björt og vistleg og með öllum nútíma tæknibúnaði fyrir kennslustarf. Eitt lítið dæmi er að nýjustu felliveggir eru svo vel hljóðeinangraðir að það er hægt að spila á rafmagnsgítar öðru megin en alger þögn ríkir hinumegin. Nemendur elstu bekkja Lundarskóla hafa verið í Rósenborg á meðan á þessum framkvæmdum hefur staðið. 

Kostnaðaráætlanir hafa staðist

Það er ánægjulegt að segja frá því að í þessum miklu aðgerðum hafa áætlanir staðist mjög vel hvað varðar tíma og kostnað og það sem er ekki minna um vert að aðstaða og aðbúnaður fyrir kennara, annað starfsfólk og nemendur hefur staðist væntingar. Af öðrum verkefnum á kjörtímabilinu má nefna að byggður var nýr og glæsilegur leikskóli í Glerárhverfi, Klappir. Þar er pláss fyrir um það bil 140 börn á sjö deildum og er húsið samtals 1450 fm að stærð. Þá var byggt langþráð aðstöðuhús á svæði Siglingaklúbbsins Nökkva í Innbænum. Loks vil ég nefna að það var byggt fallegt og hlýlegt sex íbúða heimili fyrir skjólstæðinga bæjarins við Klettaborg og tvö stök hús í Sandgerðisbót. Það er ástæða til að hrósa stjórnendum og sérfræðingum Umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureryarbæjar fyrir frábæra vinnu í þessum verkefnum.

Hvað er framundan?

En vinnunni lýkur aldrei, núna er framundan endurbygging á A og C-álmum Glerárskóla, þar sem gluggar á neðri hæð verða síkkaðir á sama hátt og tókst svo vel í Lundarskóla. Skólalóðir við Oddeyrarskóla og Síðuskóla verða endurgerðar með nútímalegum og spennandi leiktækjum. Samið hefur verið um uppbyggingu á félags- og æfingaaðstöðu í Skautahöllinni og um nýtt gervigras og stúku á KA-svæði. Og vonandi verður á næsta kjörtímabili hægt að leggja grunninn að enn frekari uppbyggingu íþróttamannvirkja í bænum.

Samvinna

Ég hef sem bæjarfulltrúi L-Listans verið formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs Akureyrarbæjar undanfarin fjögur ár og vil nota þennan vettvang til að þakka fulltrúum allra hinna flokkanna sem hafa átt sæti í ráðinu fyrir mjög gott samstarf. Við höfum ekki alltaf öll verið sammála og hafa umræður verið líflegar en þó alltaf málefnalegar og drengilegar og við höfum yfirleitt getað talað okkur niður á sameiginlega niðurstöðu sem þá hefur verið hægt að hrinda í framkvæmd. Ég vona sannarlega að nýtt ráð á næsta kjörtímabili vinni í sama anda, enda eru verkefnin ærin en þau eru yfirstíganleg ef við róum öll í takt. Andri Teitsson er bæjarfulltrúi fyrir L-Listann og formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs Akureyrarbæjar.

Andri Teitsson er bæjarfulltrúi fyrir L-Listann og formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs Akureyrarbæjar.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó