Mömmuskömm

Ég og tvær vinkonur mínar áttum gott spjall um daginn yfir rjúkandi kaffibollum. Tvær af okkur eru mæður og sú þriðja hefur ekki enn sýnt því mikinn áhuga að fara bæta lítilli manneskju á listann yfir alla þá hluti sem hún þarf nú þegar að sinna. Allt gott og blessað við það, við erum jú allar ólíkar og berum virðingu fyrir skoðunum hinna, hvort sem það snýr að því að fjölga sér eða hvort nota eigi hræódýrt Garnier BB-krem eða rándýrt Dior meik.

Talið barst að mæðrum og þeim fjölda múttu/mæðra/mömmu hópa sem til eru á Facebook. Þar gátum við allar verið sammála um það að þar er mjög áberandi svokallað ,,mom shaming”. Sú barnlausa hefur fengið af og til að skemmta sér með okkur yfir hinum ótrúlegustu rifrildum sem eiga sér stað á slíkum síðum og koma í mörgum tilfellum, börnum eða mæðrahlutverkinu ekki vitund við.

Aftur að efninu. ,,Mom-shaming” felst einfaldlega í því að setja á einhvern hátt út á það hvernig kona hagar móðurhlutverkinu. Hvort sem það er hvernig hún klæðir barnið sitt, hvort hún gefur brjóst eða pela, hvort hún vogi sér að fara út að skemmta sér og guð hjálpi henni ef barnið hennar leggur í einelti, beitir ofbeldi eða segir ljóta hluti, þá hlýtur henni að hafa mistekist gróflega í uppeldinu.

Það er langt síðan að fólk áttaði sig á því að Facebook er vettvangur þar sem neteinelti grasserar en ekki hefur mikið verið rætt um þessa hlið. Málið er að ,,mom-shaming”, sem ég finn ekki neina góða íslenska þýðingu á, hefur mjög slæm áhrif á sjálfsmynd móður sem að öllum líkindum þarf lítið á slíkri gagnrýni að halda. Mæður, leyfi ég mér að fullyrða, eru sinn eigin versti óvinur þegar kemur að sjálfsgagnrýni. Lang flestar vilja þær það allra besta fyrir börnin sín og að úr þeim verði fyrirmyndar einstaklingur sem gerir heiminn að betri stað.

Það er mannlegt að dæma hegðun annarra út frá eigin skoðunum og reynslu en það sýnir svo okkar innri mann hvernig við bregðumst við. Stöldrum aðeins við og hugsum hvort að athugasemdir okkar séu uppbyggjandi og hjálplegar eða líklegar til að valda vanlíðan og niðurbroti.

Hættum því að leyfa okkur að setja út á uppeldisaðferðir annarra, klæðaburð barnanna, hvers vegna og hvort þau séu á pela og hvernig mamman hagar sínum frítíma svo lengi sem börnin eru örugg og elskuð. Þetta á ekki bara við um Facebook, þú ert ekkert betri ef þú hvíslar gagnrýninni að næstu manneskju.

11923201_10207577595102166_4473090376523330587_n

– Eva Björk Benediktsdóttir

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó