Prenthaus

Morgunkaffi þingframbjóðanda

Morgunkaffi þingframbjóðanda

Hilda Jana Gísladóttir skrifar

Ég sit hér með samanbrotinn þvottinn sem ég á eftir að ganga frá fyrir aftan fartölvuna, ég er með kaffið og símann við höndina. Við hliðina á mér í stofunni nagar pollrólegur hundurinn beinið sitt á meðan æstur kettlingurinn nagar í buxnaskálmarnar á mér. Börnin eru farin í skólann og eiginmaðurinn í vinnuna. 

Ég er í framboði til Alþingis og ég ætla að skrifa greinar um þau málefni sem ég brenn fyrir. Ég vil skrifa um heilbrigðiskerfið, loftslagsmálin, hringrásarhagkerfið, atvinnumál, þjónustu við aldraða, kynferðislegt áreiti og ofbeldi, tækifærin á landsbyggðunum og geðheilbrigðismálin. Ég vil skrifa um mannúðlegra samfélag þar sem kærleikurinn er megin drifkrafturinn. Ég  vil skrifa um að ég brenni fyrir því að að vera þátttakandi í því að skapa betra samfélag fyrir okkur öll. Ég les yfir það sem ég hef skrifað og hugsa um það hvernig stuttar greinar hljóma nærri alltaf eins og hálfgerð froða. 

Ég stend upp, hundurinn vill ólmur komast út í garð og kettlingurinn eltir æsispenntur. Ég sest aftur við tölvuna. Hvernig kem ég því í orð að ég telji að stjórnmálin snúist um grundvallar hugmyndafræði, forgangsröðun fjármuna, heiðarleika og vinnusemi? Að þau snúist ekki um finna einn leiðtoga sem hefur öll svörin, heldur um aukna samvinnu, fagmennsku og lýðræði. Að stjórnmál snúist um að gefa kost á sér til þess að að vera auðmjúkur þjónn samfélagsins. Þjónn sem hlustar, jafnvel helmingi meira en hann talar.

Kannski mun það sem ég hef fram að færa ekki henta sem slagorð í blikkandi ljósaskilti. Ég gef hins vegar kost á mér til þess að vinna af heilindum fyrir samfélagið mitt. Ég býð fram krafta mína til þess að fylgja eftir markmiðum þeirrar metnaðarfullu kosningastefnu sem við hjá Samfylkingunni höfum nú lagt fram. Stefnu sem byggir á hugmyndafræði um aukinn jöfnuð, frelsi og réttlæti. 

Ég loka tölvunni, gef dýrunum að borða og held áfram að hugsa, hugsa um framtíðina

Höfundur er í 2.sæti Samfylkingarinnar í NA kjördæmi


Kaffið.is fylgist með Alþingiskosningunum í haust með áherslu á Norðausturkjördæmi. Hér má finna fleira greinar og annað gagnlegt efni tengt kosningunum.

Vilt þú birta grein á Kaffið.is? Sendu á okkur með því að smella hér

UMMÆLI

Sambíó