Myndlistarsýningin Myrkur opnuð í Mjólkurbúðinni

Myndlistarsýningin Myrkur opnuð í Mjólkurbúðinni

Þann 25. nóvember opnar Sigurður Mar sýninguna Myrkur í Mjólkurbúðinni á Akureyri. Á sýningunni gefur að líta ljósmyndaverk sem öll eru unnin á síðasta ári, auk valdra ljósmynda frá 1989-90 sem öðlast nýtt líf og tilgang á sýningunni. 

Heiti sýningarinnar vísar til skammdegisins sem er óvenju dimmt að þessu sinni þar sem snjólaus jörðin gleypir í sig þá litlu birtu sem gefst. Myrkrið safnast í sál margra en Sigurður ræktar geðið í skammdeginu með því að halda sér uppteknum við skapandi iðju, tilraunir og heimspekilegar pælingar um merkingu ljósmynda í nútímanum.  

Meðal þess sem Sigurður veltir fyrir sér, er hvort ljósmyndir sem aldrei hljóta læk á samfélagsmiðlum, séu raunverulega til. Hvað verður um þær ljósmyndir sem enginn hefur séð? Eða ljósmyndir sem enginn nennir að horfa á lengur? Er hægt að endurvinna þær og veita þeim nýtt líf? Eða stöndum við kannski frammi fyrir því, að nútímafólk tekur alltof mikið af ljósmyndum sem gerir þær að marklausu fyrirbæri.

Þó verkin eigi öll sér öll uppruna í myndavél, koma málning og penslar, glimmer, kökubaukar, saumavél og ýmist annað við sögu. Sigurður blandar saman gömlu og nýju; útrunnum filmum og gamaldags myndavélum í bland við nýmóðins tölvustýrða lasertækni. Hann fer ótroðnar slóðir í aðferðum og notar kaffi jafnt sem rússnesk spilliefni við framköllun og prentar sömu myndina oftar en einu sinni á sama pappírinn með áratuga millibili. Afrakstur þessa vangaveltna og tilrauna, má sjá í Mjólkurbúðinni á sýningunni Myrkur, sem opnar föstudagskvöldið 25. nóvember klukkan 20:00. Sýningin er einnig opin laugardag og sunnudag frá  14:00 – 17:00 og helgina 3. – 4. desember á sama tíma. 

Sigurður Mar er fæddur 1964 á Egilsstöðum. Hann lærði ljósmyndun í Gautaborg á níunda áratugnum og hefur unnið við margs konar ljósmyndun um árabil. Síðasta áratug hefur hann kennt ljósmyndun við Menntaskólann á Tröllaskaga og glímt við að teygja á mörkum ljósmyndarinnar í frítíma sínum. Myrkur er tólfta einkasýning hans.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó