Prenthaus

Námið hefur opnað og útvíkkað huga minnKasia Rymon Lipinska við vefstólinn.

Námið hefur opnað og útvíkkað huga minn

„Ég hef alltaf haft áhuga á handavinnu og að skapa eitthvað. Textílsvið listnáms- og hönnunarbrautarinnar í VMA heillaði mig og þess vegna ákvað ég að innrita mig á það. Mér fannst líka spennandi að prófa eitthvað nýtt og fara í framhaldsskóla í stærri bæ,“ segir Kasia Rymon Lipinska, sem býr í Neskaupstað.

Kasia var tveggja ára gömul þegar hún flutti árið 2004 til Íslands. Faðir hennar hafði farið til Íslands og skoðað sig um og leist svo vel á landið að ákveðið var að fjölskyldan flytti öll til Íslands. Hún setti sig niður í Neskaupstað en bjó einnig lengi í nágrannabænum Eskifirði. Núna býr Kasia aftur í Neskaupstað.

„Eldri systir mín fór í MA og var á heimavistinni. Mig langaði líka að fara til Akureyrar og við vorum saman um tíma á vistinni,“ segir Kasia og bætir við að hún sé enn á vistinni og líki lífið þar vel. Að hluta er hún í fæði í mötuneyti heimavistarinnar, borðar þar bæði hádegismat og kvöldmat.

„Ég var fyrst að hugsa um að fara á myndlistarsvið listnáms- og hönnunarbrautar en ákvað á síðustu stundu að velja textíllínu og sé alls ekki eftir því. Mér finnst þetta frábært nám og það mun nýtast mér mjög vel. Þetta er skemmtilegt og fjölbreytt nám og í því hef ég lært fjölmargt sem ég gat ekki ímyndað mér að ég myndi læra. Ég nefni sem dæmi að hanna mynstur og að tölvuteikna. Frá því ég byrjaði í þessu námi hefur mikið gerst. Það hefur opnað og útvíkkað huga minn,“ segir Kasia.

Að loknu náminu í VMA segist Kasia vera ákveðin í því að vinna um tíma og ná sér í pening áður en hún heldur áfram í námi. Hún segist ekki vera búin að ákveða hvert leiðin liggur og í hvað en hún hafi áhuga á að læra í útlöndum, t.d. í Bretlandi eða á Ítalíu, og vefnaður eða saumar séu ofarlega á blaði. Allt komi þetta þó í ljós í fyllingu tímans.

Grein: Óskar Þór Halldórsson/vma.is

UMMÆLI

Sambíó