NTC netdagar

„Nei” á nýju ári!

Inga Dagný Eydal skrifar

Nei takk”! Þessi kurteislega en ákveðna neitun, þessi einföldu orð eiga að verða einkunnarorðin mín á árinu 2018 og þau sem skipta mig mestu máli. Ég skal útskýra þetta nánar.

Ég er dálítill orðafíkill og oft finnst mínum nánustu (og líklega öðrum) nóg um vaðallinn í mér og hvernig ég eyði oft mörgum orðum í að útskýra einfalda hluti eða til að sannfæra fólk um réttmæti þess sem mér liggur á hjarta. Að einhverju leyti hef ég tileinkað mér þessa mælgi vegna þess að mér hefur oftast þótt mikilvægt að réttlæta það sem mér finnst og jafnvel að afsaka að mér skuli finnast eitthvað yfirhöfuð.

Það er oft miklu einfaldara að segja bara já og ég er jafnvel þá dálítið upp með mér að einhver skuli vilja mér eitthvað, spyrja mig álits, hafa mig með í hóp, hitta mig og svo framvegis. Lágt sjálfsmat er líklega einn sá versti óvinur sem hægt er að koma sér upp og það sem verra er, hann er nærri því ómögulega hægt að hrista af sér. Við vitum flest að við höfum margt til brunns að bera, erum persónur með heilmikið virði og að okkar lága sjálfsmat á sér engar alvöru forsendur þegar grannt er skoðað. Þessi lúmski óvinur er hinsvegar sniðugur og hristir af sér skynsamleg rök og spilar bara á tilfinningar og kenndir.

Ég ætla að gera tilraun til þess á komandi ári að hafa áhrif á mitt lága sjálfsmat sem skýtur upp kollinum þegar síst skyldi, með því að æfa mig í að segja „nei takk”!

Mig langar til að staldra meira við, skoða hvað það er sem mig raun til að gera og segja „nei takk” við öðru. Mig langar að afþakka kurteislega það sem ekki hentar mér og þjónar ekki tilgangi í mínu lífi. Ég hef eytt afskaplega mörgum áratugum í það að segja já þegar mig langar að segja nei og að segja já þegar ég held að ég sé að þóknast öðrum með því.

„Nei” er mikið töfraorð og kannski ekkert undarlegt að börn læri að segja nei löngu á undan því að segja já. Það er fátt mikilvægara en að koma fram við sjálfan sig og aðra af virðingu og kærleika og segja “nei takk” við öllu öðru. Á liðnu ári var vakin athygli á því hvernig karllægt samfélag brýtur á rétti kvenna til virðingar og það er óendanlega mikilvægt að við séum vakandi fyrir slíku- alltaf!

Við þurfum sem samfélag að hjálpa börnunum okkar til að æfa sig í að segja „nei takk” og læra þannig að virða sín mörk og sinn eigin vilja. Það má segja „nei” við ofbeldi, við græðgi, við valdafíkn, við misrétti og mengun og öllu öðru því sem hefur neikvæð áhrif á lífið okkar.

Ef við lærum það eru miklu meiri möguleikar á því að við getum líka sagt eitt risastórt „já” við því sem er gott fyrir okkur og lært að virða okkur sjálf ekki síður en aðra.

Ég er búin að gráta yfir „Nú árið er liðið”, búin að kyssa fólkið mitt og þakka fyrir það liðna, búin að hlæja að Skaupinu og hlusta á Guðna, nú ætla ég að hefja nýtt ár með von og gleði í hjartanu, ákveðin í að segja oftar „nei” en á því sem var að líða.

Gleðilegt ár!

Eina leiðin til að vera besta útgáfan af sjálfum sér er að gangast við sjálfum sér.

Pistillinn birtist upphaflega á  raedaogrit.wordpress.com

UMMÆLI

Sambíó