Nemendur í HA krefjast svara varðandi framkvæmd lokaprófa á vormisseriNökkvi Alexander, formaður Stúdentafélags HA ásamt Agnesi Ögmundsdóttur, varaformanni og Særúnu Önnu, fjármálastjóra

Nemendur í HA krefjast svara varðandi framkvæmd lokaprófa á vormisseri

Nemendur í Háskólanum á Akureyri hafa sett af stað undirskriftarlista þar sem krafist er svara stjórn skólans um fyrirkomulag lokaprófa á vorönn. Nemendurnir sem standa að undirskriftarlistanum vilja að lokaprófin verði heimapróf.

„Í dag eru u.þ.b tvær vikur í byrjun prófatíðar. Nemendur eru ennþá í óvissu hvað varðar próf á prófstað en nokkrir kennarar í HA hafa ákveðið að hafa heimapróf en ekki allir. Þetta er óásættanlegt að halda nemendum í óvissu. Miðað við ástandið í dag 8.apríl er útlitið ekki gott hvað varðar að hafa staðarpróf en samt vilja kennarar láta á það reyna og munu þá breyta nokkrum dögum fyrir prófdag. Við krefjumst svara frá stjórn HA um að það sama eigi að ganga yfir alla,“ segir á vef undirskriftarlistans sem yfir 500 einstaklingar hafa nú þegar skrifað undir.

Nökkvi Alexander Rounak Jónsson, formaður Stúdentafélags HA segir að framkvæmdastjórn félagsins hafi verið í reglulegum samskiptum við rektor Háskólans á Akureyri varðandi framkvæmd lokaprófa á vormisseri.

„Við eigum von á svari frá honum vegna þeirra samskipta, þar sem það hefur engu verið breytt varðandi framkvæmd lokaprófa frá því sem var gert ráð fyrir í upphafi misseris. Við hvöttum rektor sem og yfirstjórn skólans til þess að taka tillits til þeirra breytinga sem eiga sér stað í samfélaginu vegna Covid-19. Einnig gagnrýndum við að háskólinn í heild sinni hafi ekki tekið staðfasta ákvörðun vegna framkvæmdar prófanna en eins og þessi dagur hefur borið í skauti sér þá eru stúdentar ekki sáttir við ákvarðanir einstakra deilda. Við vonumst eftir því að háskólinn taki ákvörðun sem muni gagnast öllum stúdentum,“ segir Nökkvi.

Sambíó

UMMÆLI