Neyðarkall frá íbúum Oddeyrargötu vegna bílaumferðarMynd: María Helena Tryggvadóttir

Neyðarkall frá íbúum Oddeyrargötu vegna bílaumferðar

Íbúar í Oddeyrargötu á Akureyri sendu áskorun á bæjarstjórn Akureyrar í nóvember 2021 að grípa til tafarlausra aðgerða til að tryggja öryggi íbúa Oddeyrargötunnar vegna of mikillar og of hraðrar umferðar í götunni. 

„Mikið ófremdarástand ríkir hér í götunni okkar og sýna mælingar svo ekki sé um villst að hér sé hraði umferðarinnar allt of mikill miðað við 30 km/klst íbúagötu en tíðni umferðarinnar er á sama tíma langt umfram það sem þröng íbúagata með göngustíg aðeins öðru megin ásamt bílastæðum þolir,“ segir Aðalsteinn Svan Hjelm, íbúi í Oddeyrargötu.

Aðalsteinn segir að bærinn hafi hingað til ekki hlustað á íbúana í götunni. Hann segir að Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri hafi staðfest það við íbúa í götunni að engin fyrirliggjandi umferðaröryggisáætlun sé í notkun í bænum þrátt fyrir að það hafi verið samþykkt árið 2009 að slík áætlun yrði gerð.

„Svo hefur ekkert gerst í málinu síðan á þeim 13 árum sem nú eru liðin síðan. Á sama tíma hafa fjöldinn allur af stærri og smærri sveitarfélög látið útbúa sínar áætlanir og fara nú eftir með góðum árangri. Þarna höfum við í raun fengið skýringuna á því af hverju ekkert hefur verið gert hér í götunni, það liggur ekki fyrir neitt framtíðarplan um það hvernig gamla gatnakerfið hér á Akureyri á að anna þeirri auknu umferð sem hefur bæst hér við undanfarna áratugi, hvað þá þeirri umferð sem bætist við með nýju hverfunum sem munu spretta upp næstu árin.“ 

„Við vonum að þessi barátta okkur leiði loks til þess að eitthvað verði gert í málunum áður en fólk hlýtur hér alvarlegan skaða af. Við bindum miklar vonir við það að málið verði endanlega leitt til lykta eftir áratuga baráttu íbúa Oddeyrargötunnar fyrir bættri umferðarmenningu í götunni. Líkt og fram kemur í áskoruninni: Nú er mál að linni,“ segir Aðalsteinn.

Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar Akureyrar, segir í svari við fyrirspurn Kaffið.is að áskorun íbúa við Oddeyrargötu hafi verið til skoðunar hjá Umhverfis- og mannvirkjasviði bæjarins. Bæjarstjórn muni taka umferðaröryggismál til umræðu í bæjarstjórn þann 15.mars og skoða þá þessi mál í heild sinni.

Hér að neðan má sjá áskorunina sem var send til bæjarstjórnar Akureyrar í nóvember.

Við, íbúar Oddeyrargötu, skorum hér með á bæjarstjórn Akureyrar að grípa til tafarlausra aðgerða vegna nánast hömlulausrar bílaumferðar um íbúagötuna okkar, ástands sem ríkt hefur hér til margra ára og áratuga og fer versnandi með hverjum degi. Umferðarþunginn og hraðinn er slíkur að lífi okkar, barnanna okkar og allra þeirra sem hér eiga leið um fótgangandi eða hjólandi er stefnt í hættu. Fyrri tilraunir Akureyrarbæjar til úrbóta hafa engan árangur borið og því er þetta neyðarkall frá okkur íbúum Oddeyrargötunnar til ykkar!

Til að halda því til haga er Oddeyrargatan hvorki skilgreind sem stofnbraut né tengibraut á milli hverfa og á að þjóna íbúum sínum fyrst og síðast. Gatan er þröng, með gangstíg öðru megin og bílastæði sitt hvoru megin hennar og getur því með engu móti tekið við þeim fjölda ökutækja sem hér fer um nánast óáreitt. Hámarkshraði í götunni er 30 km/klst en samkvæmt mælingum ekur mikill meirihluti ökumanna yfir leyfilegum hámarkshraða og þeir sem hraðast fara aka á um og yfir 80 km/klst! Eftir áratuga baráttu íbúa Oddeyrargötu fyrir bættri umferðarmenningu er mál að linni, ekki verður lengur unað við þetta ástand. Hér hefur verið keyrt inn í garða, utan í bíla, á rafmagnskassa og gangandi vegfarendur og einungis tímaspursmál hvenær verði stórslys á fólki, jafnvel banaslys. Því má segja að í Oddeyrargötunni ríki fullkomið neyðarástand sem bregðast verður við ekki seinna en strax.

Vandamálið er tvíþætt; tíðni bílaumferðar er allt of há, langt yfir burðarþoli götunnar, á sama tíma og hraði umferðar er langt umfram það sem telst eðlilegt. Lausnin er einnig tvíþætt, að til skemmri tíma grípi Akureyrarbær tafarlaust til bráðabirgðaaðgerða til að tryggja öryggi íbúa og gangandi og hjólandi vegfarenda, hægja á umferð og beina henni þannig meira inn á þar til gerðar stofnbrautir. Slíkar aðgerðir fela meðal annars í sér þrengingar, fleiri varanlegar, “harðari” og sýnilegri hraðahindranir sem sannarlega hægja á umferð. Einnig þarf að setja upp hraðaviðvörunarskilti (með broskarli) og mála gangbrautir á öllum þeim stöðum þar sem gangandi vegfarendur eiga leið yfir Oddeyrargötuna og meðfram henni þar sem hún mætir aðliggjandi götum. Þetta er allt hægt að gera strax. Til lengri tíma viljum við sjá að lögð verði fram fullmótuð framtíðarsýn þar sem þarfir íbúa Oddeyrargötu ásamt gangandi og hjólandi vegfarenda eru í fyrirrúmi. Slík vinna yrði lögð í hendur verkfræðistofu sem býr yfir sérfræðiþekkingu á þessu sviði og myndi hefjast strax, unnin með fulltingi íbúa götunnar. 

Í ljósi þess ófremdarástands sem hér er lýst væntum við skjótra svara og tafarlausra aðgerða.

UMMÆLI

Sambíó