Niðurstöður opins fundar um grafíkverkstæði í Deiglunni

Þriðjudaginn 5. Desember 2017 hélt stjórn Gilfélagsins opinn fund í Deiglunni þar sem til umræðu var sú hugmynd sem stjórnin hefur unnið að undirbúningi við síðustu misseri um að útbúa grafíkverkstæði í Deiglunni. Ánægjulegt var hversu margt fólk sýndi málinu áhuga með því að mæta á fundinn. Einnig var góð og fjölbreytt þátttaka í umræðum. Hér verður farið yfir kynningu Gilfélagsins í stuttu máli og síðan yfir niðurstöður fundarins.

Grafíkverkstæði Gilfélagsins í Deiglunni
Hugmyndin er að setja upp tvær til þrjár grafíkpressur, fyrir hæðarprent og djúpþrykk. Með tilheyrandi vinnuaðstöðu fyrir þá tegund grafíkur.
Hugmynd stjórnarinnar er að í Deiglunni verðu sköpuð aðstaða fyrir listamenn, félagsmenn í Gilfélaginu og fyrir aðra listamanna sem óska eftir aðstöðu til að vinna að grafík.
Samkvæmt markmiðum Gilfélagsins, eins og þau eru skilgreind í lögum félagsins féllur þessi hugmynd fullkomlega að þeim markmiðum.

2.gr

Markmið félagsins er að efla listsköpun og listflutning með því m.a. að skapa lista- og handverksfólki aðstöðu til að iðka list sína og búa því sem best athvarf til að sýna hana og flytja.

Hvað þarf að gera í Deiglunni?
Setja upp fast vinnuborð með tveimur vöskum á austurvegg í Deiglunni, þar sem frárennsli og vatnslagnir eru.
Breytingar á pöllum, í Deiglunni, þeim fækkað í tvo palla.
Veggur, einn tekin niður (forstofa) og annar smíðaður til að skilja á milli sýningarrýmis og grafíkverkstæðisins. Sýningarrými verður því fremst, frá inngangi og að nýja veggnum, rúmgott og mun henta betur til sýninga en Deiglan í heild gerir núna.
Laga lýsingu og færa brunaslöngu.
Hugmyndir hafa komið fram um að framkvæma þetta í áföngum og sjá til hvort þörf reynist fyrir grafíkverkstæðið

Kostnaður sem Gilfélagið legði til:
Vegna innréttinga. Tvö stór vinnuborð og tíu minni borð.
Þrjár pappírs geymslur.
Efnis fyrir grafík, litur, verkfæri og pappír.
Þrykkivélar, tvær fyrir djúpþrykk ein fyrir hæðarprent.
Starfsmaður í hlutastarfi – þarf að finna lausn á að hafa starfsmann í hlutastarfi.
Spurning hvort þar megi sameina starfsmann fyrir Gilfélagið, grafíkverkstæðið, GraN og Myndlistarfélagið.

Tekjumöguleikar
Leiga á verkstæði.
Prentun á grafíkverkum fyrir listamenn.
Sala á grafíkverkum og útgáfa á grafíkmöppum.
Námskeið og kennsla í samvinnu við framhaldsskóla, grunnskóla.
Móttaka ferðamanna.

Opinn fundur
Guðmundur Ármann hóf fundinn með því að fara yfir þá fundi sem stjórn Gilfélagsins hefur haldið með Akureyrarstofu og Umhverfis- og mannvirkjasviði Akureyrarbæjar. Guðmundur sýndi skissur þeim hugmyndum sem fyrir liggja nú. Einnig gerði hann í stuttu máli grein fyrir kostnaðaráætlun sem teiknistofan Kollgáta hefur unnið fyrir Gilfélagið. Guðmundur sagði frá þeim gjöfum sem verkefninu hafa borist nú þegar auk væntanlegra gjafa ef af verður auk þess að fara yfir rekstraráætlanir
Gengið er út frá því að Gilfélagið leggi til þá lausamuni sem til þarf en að Akureyrarbær kosti innréttingar og breytingar á húsnæðinu. Guðmundur sagði einnig frá þeirri tilllögu Umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar um að byrja á lágmarks breytingum, þ.e. að setja upp vaska, hillur og bæta lýsingu (sem er nauðsynlegt að gera hvort sem er) og sjá svo til með framhaldið. Mesti kostnaðurinn verður við að útbúa í pappírsgeymslu í tröppunum en það getur vel beðið.

Umræður:

 • Spurt var hvort ekki væri betra að fara annað með grafíkverkstæðið t.d. í Rósenborg.
 • Öðrum þótti húsnæðið of dýrt til að vera verkstæði.
 • Einn fundarmaður sagði mikilvægt að ábyrgð á starfseminni væri skýr og þyrfti að vera á höndum eins aðila en ef um væri að ræða einkarekstur þyrfti að setja því ströng skilyrði.
 • Bent var á að mikilvægt væri að hafa grasrót til mótvægis við Listasafnið.
 • Margir lýstu sig sammála hugmyndinni og að gott væri að fá eitthvað nýtt í plássið.
 • Bent var á að pallarnir nýttust illa núna, allir ættu að hafa aðgang að húsinu og helst að þar
 • væri dagleg starfsemi.
 • Einn taldi gott að velta fyrir sér nýrri starfsemi því nýja listasafnið muni breyta miklu og taldi rétt að gera þessa tilraun.
 • Tveir fundargestir sem eru kennarar sögðust finna gríðarlegan áhuga fyrir gömlu handverki hjá ungu fólki.
 • Einn taldi þetta góða hugmynd þar sem það vanti líf í Gilið. Ýmsir hópar fái hvergi inni. Helst þyrfti alltaf að vera starfsemi í húsinu.
 • Einn gestur sem er arkitekt vildi skoða hvort mætti ekki taka niður veggi og opna rýmið enn betur en nú er hvort sem um yrði að ræða verkstæði eða syningarsal til að fá enn betri sýningarsal.
 • Talað var um daglega starfsemi sem ekki færi aðeins fram seinni parta, á kvöldin og um helgar heldur væri nauðsynlegt að hafa einhverja virkni í húsnæðinu á dagvinnutíma, geta tekið á móti gestum og gangandi á þeim tíma o.s.frv.
 • Þá var nefnt hvort væri möguleiki á að reka gallerý með sama fyrirkomulagi og Samlagið var rekið hér á árum áður, með yfirsetu listamannannn sjálfra (þá er vissulega komið tækifæri til daglegrar starfsemi að deginum til).
 • Ítrekað var að þó Deiglunni yrði breytt i verkstæði þá væru ekki síður möguleikar til námskeiðahalds í hvers konar annarri vinnu/myndlist eða öðrum greinum.

Þórgnýr Dýrfjörð, deildarstjóri Akureyrarstofu, tók stuttlega til máls og sagði hugmyndina og kynningar Gilfélagsins sýna vilja til að koma lífi í húsið.
Sigfús Karlsson, varaformaður stjórnar Akureyrarstofu, tók einnig til máls og staðfestir kynningu verkefnisins fyrir Akureyrarstofu þar sem það hlaut jákvæðar undirtektir. Hann telur það góða hugmynd að varðveita og sýna handverk, einnig til að sýna ferðamönnum. Hann segir þó að væntanlega geri bærinn þó ekki mikið fyrr en í ljós kemur hvernig listasafnið virkar og spyr hvað framkvæmdastjóri Listasafnsins segi um hugmyndina?
Hlynur Hallsson, framkvæmdastjóri Listasafnsins, tók til máls og fer lauslega yfir framtíðarsýn safnsins þar sem verði sýningarsalir, kaffihús, vinnustofur og gestaíbúðir fyrir lista- og fræðafólk. Hann kveður hugmyndir að breytingum á safninu einnig gerðar til að þjóna grasrótinni. Mjólkurbúðin verður áfram einkarekin en við hliðina á henni er 100fm rými þar sem hópar gætu fengið inni, í það minnsta er stefnt að lifandi starfsemi þar. Ef litið sé lengra inn í framtíðina verði hugsanlega tvö til þrjú rými á jarðhæð í Ketilhúsi. Nýlega voru auglýst til leigu 6-8 rými efst í Kaupvangsstræti 23. Einnig eru hugmyndir um listasmiðju á Kammó (Salernin undir kirkjutröppum) og sýningarsalur í Kollgátu. Næsta sumar lifnar Listagilið vonandi við. Framkvæmdalok í safni, nálægð við miðbæ. Ef umferð yrði takmörkuð yrði gilið vistvænna og grænna.

Samantekt:
Á þrjátíu manna fundi var samhljómur um að hugmyndin um opið grafíkverkstæði væri góð hugmynd. En ýmsar skoðanir komu fram um hvernig ætti að koma verkstæðinu fyrir, eða hvernig ætti að hanna verkstæðið og Deigluna. Þá var einnig rætt mikilvægi þess að halda sýningarsalnum. Sú skoðun kom fram hvort finna ætti annan stað en Deigluna. Þá var viðruð sú hugmynd að bjóða út Deigluna þannig að hún væri í höndum einkaaðila en ekki félagasamtaka.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó