Nikótíneitrun hjá leikskólabarni á Akureyri

Nikótíneitrun hjá leikskólabarni á Akureyri

Í síðustu viku fann barn í einum af leikskólum bæjarins nikótínpúðadós sem það hélt að væri tyggjó og bauð vini sínum upp á. Börnin smökkuðu bæði en spýttu púðunum fljótt út úr sér. Skömmu síðar veiktist annað barnið og greindist með nikótíneitrun. Starfsfólk leikskólans brást hárrétt við og betur fór en á horfðist. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Akureyrarbæjar í dag.

Þar segir að barnið hafi jafnað sig fljótlega eftir heimsókn á Sjúkrahúsið á Akureyri og mætti í skólann daginn eftir.

„Það var mikið lán að barnið gleypti ekki púðann þar sem það margfaldar áhrif nikótínsins. Helstu einkenni nikótíneitrunar í börnum eru ógleði, uppköst og svimi, en þau geta verið alvarlegri og jafnvel banvæn. Í öllum leikskólum Akureyrarbæjar eru útisvæðin yfirfarin daglega af starfsfólki skóla til að tryggja öryggi barna. Vissulega getur það reynst krefjandi í rysjóttu veðri og í vetrarrökkrinu,“ segir í tilkynningu Akureyrarbæjar.

Í tilkynningunni er minnt á að nikótínpúðar, notaðir jafnt sem ónotaðir, eiga ekki heima í leikskólum, hvorki innan veggja þeirra eða utan. Í lögum um nikótínvörur nr. 87 2018 segir:

„Notkun nikótínvara er óheimil þar sem starfsemi fyrir börn og ungmenni fer fram, svo sem í dagvistun, félags-, íþrótta- og tómstundastarfi, eins og til dæmis leikskólum, grunnskólum, framhaldsskólum, vinnuskólum og annarri sambærilegri starfsemi fyrir börn yngri en 18 ára.“

„Börn eru forvitin að eðlisfari og rannsaka það sem fyrir augu ber með fjölbreyttum hætti, meðal annars með því að setja hluti upp í sig. Brýnum fyrir börnum að smakka hvorki né drekka það sem þau vita ekki hvað er. Hugum vel að því hvar hættuleg og skaðleg efni eru geymd og hvar og hvernig þeim er fargað,“ segir í tilkynningu bæjarins.


UMMÆLI