Norðlenskur framburður, týndur og tröllum gefinn?

Norðlenskur framburður, týndur og tröllum gefinn?

Í sumar munu fara fram upptökur á röddum við Háskólann á Akureyri með norðlenskan framburð.

„Eins og kunnugt er þá eru íslensk framburðareinkenni á undanhaldi og hafa verið það undanfara áratugi en það er okkur hjartans mál að varðveita þau framburðareinkenni sem eru enn til staðar í íslensku málsamfélagi í dag. Því biðlum við til fólks að taka þátt í leitinni að norðlenskum einstakling sem hefur einhver af eftirfarandi framburðareinkennum í máli sínu,“ segir í fréttatilkynningu.

  • Harðmæli

Þegar lokhljóðin p, t, og k koma fyrir í miðju orði eða í lok orðs eru þau borin fram með fráblæstri. Orðið vita er þá borið fram „vitha“ en ekki „vida“  eins og flestir aðrir landsmenn gera, það kallast linmæli. Harðmæli gerir þó ekki þessi lokhljóð fráblásin ef þau koma á eftir órödduðum hljóðum, allir bera spila fram sem „sbila“ /spɪːla/ en enginn „sphila“. 

  • Raddaður framburður 

Þá er bolti borið fram sem „bol-ti“ en ekki „bohldi“ og seinka borið fram sem „sein-ka“ en ekki „seihn-ga“. 

  • -, -framburður 

Þar kemur fram lokhljóð á undan [ð], hafði er þá borið fram „habði“.

  • ngl-framburður 

Þar er borið fram lokhljóð í [ngl], líkt og stafsetningin bendir til. Orð eins og dingla er þá borið fram „dín-gla“ en ekki „dínla“.

Þannig að ef þú þekkir einhvern endilega bentu henni/honum á að hafa samband. 

Nánar um verkefnið

Um er að ræða að ræða tvær raddir (einni karlmanns og einni kvenmanns) fyrir gagnasöfnunina Talróm en sú gagnasöfnun er framkvæmd af Háskólanum á Akureyri, Háskólanum í Reykjavík og  RÚV í þeim tilgangi að safna raddupptökum til þróunar á íslenskum talgervlum. Upptökur fara fram á Akureyri í upptökuveri Háskólans á Akureyri.

Tekið er upp 2 klukkutíma í senn hvern virkan dag. Lesnar eru stuttar setningar, á bilinu 5 til 15 orð. Gert er ráð fyrir að hver þátttakandi taki upp 20 klukkustundir af talgögnum en áætla má að fyrir hverja 2ja klukkustunda upptöku liggi eftir 45 mínútur af talgögnum.

Verkefni þetta er hluti af áætluninni um Máltækni fyrir íslensku 2018–2022. Markmiðið með verkefninu er að gera íslensku aðgengilega til notkunar í hugbúnaðarþróun í stafrænum heimi en vegna örra tæknibreytinga er hætt við því að tungumálið okkar muni eiga undir högg að sækja ef ekki er hægt að eiga samskipti við hin ýmsu tæki og tölvur á íslensku. Nánar má lesa um áætlunina hér.

Ef þú hefur áhuga hafðu þá samband við Ragnheiði Þórhallsdóttur (ragnheidurth@ru.is) verkefnastjóra hjá Mál- og raddtæknistofu HR til að fá frekari upplýsingar. Merkja umsókn Norðlenskar raddir.

UMMÆLI