Norðurhjálp opnar á ný á föstudaginnGengið er inn aftan frá við Dalsbraut 1. Ljósmynd: RFJ/Kaffið

Norðurhjálp opnar á ný á föstudaginn

Flóamarkaðurinn Norðurhjálp opnar aftur í nýju húsnæði nú á föstudaginn, þann 21. júní næstkomandi. Opið verður frá klukkan 13:00 og eitthvað fram eftir degi og verða léttar veitingar í boði á staðnum.

Markaðurinn var til húsa að Hvannavöllum 10 (gamla Hjálpræðishernum) þar til 1. apríl en þá rann leigusamningurinn út, enda stendur til að rífa húsið. Nýja húsnæðið stendur við Dalsbraut 1 og er um það bil 400 fermetrar og ekki veitir af því markaðurinn hafði sprengt utan af sér gamla húsnæðið.

Sæunn Ísfeld Guðmundsdóttir er ein af þeim sem stóð að opnun markaðsins í október í fyrra og ræddi hún við fréttaritara um verkefnið á dögunum. Norðurhjálp er nefnilega ekki bara flóamarkaður heldur líka góðgerðarsamtök. Fjórar konur stóðu saman að stofnun Norðurhjálpar og var það ákveðið strax í upphafi að aldrei skyldi borga neinni þeirra laun. Þegar leigan hefur verið greidd í hverjum mánuði renna allar aðrar tekjur beint til góðgerðarmála.

Norðurhjálp leggur sig fram um að styrkja einstaklinga og fjölskyldur á Norðurlandi sem þurfa á aðstoð að halda. Flestir styrkirnir eru gefnir sem Bónuskort og því nýttir í matvæli en einnig hefur Norðurhjálp styrkt fólk um húsgögn, föt og aðrar nauðsynjar. Sæunn segir þörfina á slíkri aðstoð hafa verið mun meiri en þær héldu þegar haldið var af stað með markaðinn. Það hefur því hjálpað að viðtökurnar frá viðskiptavinum hafa verið frábærar og hefur Norðurhjálp gefið út styrki upp á meira en fimm miljónir króna frá því í október. Konurnar sem stofnuðu saman Norðurhjálp hafa allar reynslu af góðgerðarstörfum og segir Sæunn það alltaf blendnar tilfinningar þegar mikið er að gera hjá slíkum samtökum: „Að sjálfsögðu er það þungt að sjá hvað þörfin er mikil en flott að sjá að fólk sé nógu hugrakkt til þess að þora að sækja sér aðstoð.“

Sæunn segist mjög spennt fyrir opnun í nýju húsnæði og að hún fái mjög reglulega fyrirspurnir um hvenær þau fari nú að opna á ný: „Ég held við séum með bestu viðskiptavini í heimi.“ Hjá Norðurhjálp er lögð áhersla á að halda í notalega stemmingu, frekar en að myndist „verslunarstemming,“ eins og Sæunn orðar það. Þónokkrir fastagestir mættu á markaðinn nær daglega í gamla húsnæðinu og fengu sér kaffi og kleinur. Sæunn reiknar fastlega með því að sjá þá aftur á Dalsbrautinni þegar markaðurinn opnar á ný.

Á myndinni sést hvernig gestir komast að innganginum, en keyra eða ganga þarf upp fyrir hornið á byggingunni þeim megin sem hún snýr að Borgarbraut. Ekki er hægt að komast að innganginum Glerártorgsmegin. Mynd: Google Maps.

UMMÆLI