beint flug til Færeyja

Nú mega jólin koma fyrir mér

Þetta er aðsendur pistill. Ef að það leynist penni innra með þér eða eitthvað brennur sérstaklega á þér, þá skaltu ekki hika við að senda á okkur fyrirspurn á kaffid@kaffid.is eða hafa samband á Facebook síðunni okkar.

Gunnlaugur Víðir Guðmundsson skrifar

Gunnlaugur Víðir Guðmundsson skrifar

Það eru nokkrar setningar sem ég hef óbeit á. “Ég er lasarus”, “ætla að fara að sofa í hausinn á mér”, “víst að þetta fór svona” og “nú mega jólin koma fyrir mér”. Þar sem fyrstu þrjár setningarnar eru augljóst brot á þeim sem á þær þurfa að hlusta einbeitum við okkur að þeirri seinustu, enda jólin að nálgast.

Ef þér er ekki orðið nú þegar ljóst þá er ég leiðinlegur maður. Leiðinlegur maður sem er að fara að dæma. Jólaskap er ekki ein af tilfinningum mannsins, treystu mér sú tilfinning er ekki til. Þegar ég var krakki þá voru jólin geggjuð, fullt af pökkum. Að vísu einnig dularfullir menn með skegg að dæma hegðun mína og horfðu á mig sofa. Held að tilfinningin sem ég hafi upplifað hafi verið spenna, það er vissulega tilfinning. Ég er kominn í tívolískap… Þessar minningar og margar af dýpstu tilfinningum mannsins eru misnotaðar til að selja vörur. Jólin eru veisla fyrir kaupmenn.

Við mér blasir tímabil sem spannar næstum tvo mánuði, það er næstum jafn langt og sumarið. Þetta er tímabil tilfinningakláms. Jólalög glymja og þau fjalla í 90% tilfella um ástina, sem er einmitt afar djúp tilfinning. Auglýsingar um fjölskylduna og ánægjustundir. Jólasveinninn kom frá Coke og það á að vera tré inni í stofu. Muna að baka allar sortir og fara yfir hver sendi kort í fyrra, ekki vil ég að allir haldi að ég sé fífl.

Mér líður pínu eins og þessi ofgnótt af jóladóti setji of mikla pressu á mig að elska allt í kringum jólin. Ég elska svo sannarlega ekki allt við þau og fyrir sumum er ég skrímsli. Jólin eru samt alveg fín. Þau geta bara orðið ógeð ef þú overdosar. Kannski ekki ósvipað og með gyllta molann í machintosh. Nei, er ekki að blekkja neinn hann er sjúklega góður, vildi virka harður. Frekar eins og Víkingaklappið.

Mér finnst samt alveg geggjað að fá frí og vera á brókinni langt fram eftir degi. Gaman að fá gjafir og gefa þær og borða góðan mat. Ég fíla að spila og vera með fjölskyldu og vinum. Þetta er samt eitthvað sem er geggjað óháð árstíma. Dreifum þessum sykri aðeins yfir árið, ég er bara ekki með svona mikið af tilfinningum í einu. Varðandi jólaundirbúning komst ég ágætlega að orði í seinasta pistli, Helgi Björns sagði það í meintu jólalagi.

UMMÆLI

Sambíó