Prenthaus

Ný stikla úr Dýrinu eftir Valdimar

Ný stikla úr Dýrinu eftir Valdimar

Í gær var frumsýnd ný stikla fyrir kvikmyndina Dýrið, eða Lamb á ensku, eftir Valdimar Jóhannsson. Stiklan hefur vakið mikla athygli. Kvik­mynd­in verður frum­sýnd í kvik­mynda­hús­um 8. októ­ber næst­kom­andi. 

Sænska leikkonan Noomi Rapace fer með aðalhlutverk í myndinni ásamt Hilmi Snæ Guðnasyni. Þau leika sauðfjárbændurna Maríu og Ingvar sem búa á bóndabæ í afskekktum dal. Einn daginn fæðist dularfull vera á bænum og þau ákveða að ala hana upp sem sitt eigið afkvæmi.

Valdimar skrifaði handrit myndarinnar ásamt Sjón en framleiðendur eru Hrönn Kristinsdóttir og Sara Nassim. Með helstu hlutverk ásamt Rapace og Hilmi Snæ fara Björn Hlynur Haraldsson og Ingvar E. Sigurðsson. Kvik­mynd­in vann til verðlauna á kvik­mynda­hátíðinni í Cann­es sem fór fram í byrj­un júlí og var val­in frum­leg­asta mynd­in.

Valdimar, sem er fæddur og uppalinn á Svalbarðseyri, hefur starfað í íslenskum kvikmyndaiðnaði í um 20 ár. Hann hefur gert stuttmyndirnar Dögun og Harmsögu ásamt því að hafa starfað sem ljósamaður, gripill og tökumaður í fjölmörgum verkefnum.

Hann nam við Kvikmyndaskóla Íslands eftir útskrift úr Verkmenntaskólanum á Akureyri. Síðar fór hann til Sarajevo í Bosníu þar sem ungverski leikstjórinn, Béla Tarr, rak kvikmyndaskólann Film Factory við Sarajevo School of Science and Technology 2012-2016.

Sjáðu nýju stikluna fyrir Dýrið:

Sambíó

UMMÆLI