Nýkrýndir bikarmeistarar heimsækja Höllina

Hágæða körfubolti í Höllinni í kvöld.

Það er stórleikur í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld þegar Þórsarar fá stórlið KR í heimsókn í Íþróttahöllina. Hefjast herlegheitin klukkan 20:00.

Þórsarar þurfa á sigri að halda en liðið háir harða baráttu um eitt af átta efstu sætum deildarinnar sem gefa keppnisrétt í úrslitakeppnina en sex leikir eru eftir af deildarkeppninni og sitja Þórsarar í sjöunda sæti með sextán stig.

KR-ingar eru hinsvegar á toppi töflunnar og eru ríkjandi Íslands- og bikarmeistarar en þeir lögðu Þór frá Þorlákshöfn að velli í bikarúrslitum um síðustu helgi.

Vesturbæjarstórveldið hefur á að skipa mörgum af bestu körfuknattleiksmönnum landsins um þessar mundir og ætti Benedikt Guðmundsson, þjálfari Þórs, að þekkja þá vel enda þjálfaði hann leikmenn á borð við Jón Arnór Stefánsson, bæði í yngri flokkum KR og síðar í meistaraflokki þar sem hann gerði liðið að Íslandsmeisturum.

Þór-KR í kvöld.

UMMÆLI