Nýr snjótroðari á leiðinni í KjarnaskógSíðustu spor Gamla rauðs. Ljósmynd: Ingólfur Jóhannsson.

Nýr snjótroðari á leiðinni í Kjarnaskóg

Skógræktarfélag Eyfirðinga hefur safnað þeim 35 milljónum króna sem stefnt var að til að fjármagna nýjan snjótroðara fyrir Kjarnaskóg. Tækið hefur nú verið pantað og von er á því fyrir vetrarlok.

Söfnunin stendur þó formlega yfir áfram til 22. febrúar. Söfnunarfé umfram kostnað við kaup á snjótroðaranum verður notað til að koma þaki yfir nýja tækið, þjálfa starfsmenn við notkun þess, kaupa nauðsynlega varahluti og verkfæri og þess háttar. Áfram verður hægt að fylgjast með söfnuninni á vef félagsins, kjarnaskogur.is.

„Skógræktarfélag Eyfirðinga stendur í mikilli þakkarskuld við alla sem hafa aðstoðað við þetta mikilvæga lýðheilsuverkefni. Kjarnaskógur er lýðheilsumiðstöð sem fólk á öllum aldri, heimafólk og gestir, notar sér til ánægju og heilsubótar. Snjótroðari skiptir sköpum um að skógurinn nýtist sem flestum allan ársins hring. Því má segja að þau gleðitíðindi sem við færum í dag séu mikið fagnaðarefni fyrir alla sem koma í Kjarnaskóg,“ segir á kjarnaskogur.is.

Snjótroðari af gerðinni PistenBully 100 er á leiðinni í Kjarnaskóg. Ljósmynd af pistenbully.com.

UMMÆLI