Listasafnið gjörningahátíð

Nýtt kaffihús opnar í Listasafninu í júní

Nýtt kaffihús opnar í Listasafninu í júní

Á dögunum var skrifað undir samning milli Listasafnsins á Akureyri og Þórunnar Eddu Magnúsdóttur og Eyþórs Gylfasonar um rekstur kaffihúss í Listasafninu. Stefnt er á opnun um miðjan júní og mun kaffihúsið bera heitið Ketilkaffi. Þetta kemur fram á vef Listasafnsins á Akureyri í dag.

„Við erum mjög spennt fyrir að flytja aftur heim til Akureyrar og opna Ketilkaffi í Listasafninu, en okkur hefur lengi dreymt um að opna lítið kaffihús. Við Eyþór höfum góðan grunn úr kaffi- og veitingageiranum, bæði á Íslandi og erlendis, og viljum bjóða Akureyringum og öðrum gestum bæjarins upp á hágæða veitingar,“ ,“ segir Þórunn Edda Magnúsdóttir á vef Listasafnsins.

Sérvalið kaffi frá Kaffibrugghúsinu og náttúruvín frá Mikka ref

„Á boðsstólnum verður m.a. sérvalið kaffi frá Kaffibrugghúsinu, frábær náttúruvín frá Mikka ref, límonaði sem blandað er á staðnum og spennandi kokteilar, svo eitthvað sé nefnt. Áhersla verður á góðan mat úr gæðahráefnum og má þar nefna súrdeigsbrauðið okkar og salöt með sérvöldum ostum og kjötmeti, fjölbreyttan tapasseðil og ferskar acai- og drekaávaxtaskálar. Að sjálfsögðu verður svo hægt að fá eitthvað sætt með kaffinu og erum við sérstaklega spennt fyrir að bjóða upp á súrdeigskleinuhringina okkar, sem gerðir eru ferskir frá grunni á hverjum morgni.“

„Alltaf gott veður á Akureyri“

„Eins og allir vita er alltaf gott veður á Akureyri og sólríka stéttin fyrir framan safnið og svalirnar á fjórðu hæðinni eru tilvalin svæði til að tylla sér með svalandi drykk og góðan mat og fylgjast með mannlífinu. Við hvetjum áhugasama til að fylgja okkur á samfélagsmiðlum, en þar erum við þessa dagana að sýna frá tilraunaeldhúsinu okkar og öðrum undirbúningi. Þegar nær dregur opnun í júní munum við svo kynna opnunartilboð sem gilda fyrir okkar fylgjendur og því er um að gera að fylgjast með,“ segir Þórunn Edda.

Hægt er að fylgjast með Ketilkaffi á samfélagsmiðlum og á heimasíðu:

https://www.facebook.com/ketilkaffi

https://www.instagram.com/ketilkaffi

https://www.ketilkaffi.is

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó