Nýtt pottasvæði hefur verið opnað í Sundlauginni á Grenivík. Nýja pottasvæðið getur tekið allt að 30 manns í einu og er því töluverð breyting frá litla 12 manna plastpottinum sem var þar áður. Hermann Gunnar Jónsson, forstöðumaður Sundlaugarinnar á Grenivík segir í samtali við N4 að nýja pottasvæðið gjörbreyti allri aðstöðu í sundlauginni.
„Þetta er mikil framför og gaman að geta boðið upp á þetta og mér finnst fólk gera þessu frekan góðan róm,“ segir Hermann á N4. Hann segir einnig að glerveggur sem var settur upp í stað trégirðingar við sundlaugina fyrir nokkrum árum hafi fært laugina í flokk með öðrum útsýnissundlaugum landsins.
„Nú geturðu setið í pottinum og horft á Kaldbak, yfir Grenivíkina, upp á Blámannshatt, út Eyjafjörð. Og svo er Guð almáttugur hér á næstu lóð. Menn eru klaufar ef þeir geta ekki látið sér líða sæmilega í pottinum í þessari aðstöðu.“
Ítarlegri umfjöllun um málið má finna á N4.is en hér að neðan er viðtalið við Hermann á N4.
UMMÆLI