Oddvitar í nærmynd: Logi Einarsson í Samfylkingunni situr fyrir svörum

Kosningakaffið leitar svara hjá efstu sætum á listum stjórnmálaflokkanna í Norðausturkjördæmi. Viðtölin verða öll birt á næstu dögum en Kosningakaffið er tilraun til þess að auðvelda kjósendum að fræðast um flokkana, málefni þeirra, stefnur og fólkið á bakvið þá til þess að kjósendur geti tekið upplýsta ákvörðun í komandi kosningum. Hverju eru allir að lofa? Ef ég kýs þennan flokk, hvað græði ég á því sem Íslendingur og Norðlendingur?
Fjórði viðmælandinn er Logi Már Einarsson, oddviti Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi. Logi komst á þing fyrir NA-kjördæmi í síðustu kosningum og stefnir þangað aftur. Við gefum Loga orðið.

Logi Már Einarsson, oddviti Samfylkingarinnar í NA-kjördæmi.

Hvað finnst þér um að fara í kosningar svona stuttu eftir kosningar?
Það var óvænt en mér líst í sjálfu sér ágætlega á það. Maður reiknaði í sjálfu sér ekki með því að stjórnin héldi út kjörtímabilið, til þess var hún of ósamstíga og minni flokkarnir tveir þurftu að éta of mikið ofan í sig af loforðum. Þetta sprakk þó fyrr en maður reiknaði með. Ríkisstjórnin var ósamstíga, verklítil hægri sinnuð og í sjálfu sér gott að hún sprakk. Nú gefst vonandi mikilvægt tækifæri til að mynda hér ríkisstjórn um betri lífskjör almennings og félagslegan stöðugleika. Fikra sig nær hinu Norræna módeli.

Hver verða ykkar helstu stefnumál fyrir komandi kosningar og af hverju ættu Norðlendingar að kjósa flokkinn?
Við leggjum áherslu á bætt lífskjör venjulegs fólks og koma á félagslegumstöðugleika. Við ætlum að styrkja opinbera heilbrigðiskerfið og ráðast í stórsókn í menntamálum.

Standa þarf við samgönguáætlun sem var samþykkt á Alþingi rétt fyrir síðustu kosningar.
Nauðsynlegt er að leita allra leiða til að ná betri dreifingu ferðamanna um landið og styðja við uppbyggingu millilandaflugs í kjördæminu, m.a. með því að klára byggingu flughlaðs á Akureyrarflugvelli. Gera þarf innanlandsflugið að valkosti fyrir almenning með aðgerðum sem lækka verð.
Byggja þarf upp atvinnulíf og samgöngur út um allt land. Tryggja raforkuöryggi og háhraðanet út um allt land.
Leggja þarf enn meiri áherslu á sóknaráætlanir landshluta þar sem heimamenn forgangsraða fjárfestingu og uppbyggingu í heimabyggð. Auk þess þarf hið opinbera að bjóða störf án staðsetningar setja á á fót stjórnsýslustarfsstöðvar í stærri sveitarfélögum þar sem starfsfólk mismunandi stjórnsýslustofnana getur starfað.

Hefur þú náð að gera eitthvað af því sem þú lofar í síðustu kosningum? Ef ekki, þá af hverju? Og af hverju telur þú að þér takist það ef þú kemst á þing aftur í þessum kosningum?
Þingmenn í minnihluta geta ekki vænst þess að ná þingmálum í gegn. Ég lagði þó fyrir 8 þingmál sem ég vona að fá brautargengi verðum við í meirihluta. Árangurinn er þó ekki endilega mældur í samþykktum frumvörpum heldur líka getu til að bæta mál annarra , leggja gott til umræðu og afgreiðslu þeirra og setja á dagskrá umræðu um mikilvæg mál. Það hef ég reynt að gera. Ég er t.d. sannfærður um að framganga mín í málefnum hælisleitaenda s.l. haust varð til þess að samþykkt var bráðabirgðarbreyting á útlendingalögum, sem ég lagði fram ásamt fimm öðrum formönnum. Þá hafa flestir flokkar lýst yfir vilja til að endurskoða útlendingalögin eftir kosningar, þar sem styrkt verði sérstaklega ákvæði sem tryggja börnum aukna vernd og réttlátari meðferð.

Segjum sem svo að þinn flokkur fengi öll atkvæði þjóðarinnar og þið réðuð yfir öllu alþingi. Hvert yrði fyrsta mál á dagskrá?
Skipta gæðunum jafnar.

Telur þú að það stefni í annað hrun? Ef já, er eitthvað sem þú gætir gert til að koma í veg fyrir það?
Nei ég hef í sjálfu sér ekki ástæðu til að ætla það. Hins vegar er íslensk hagsveifla þannig að eftir 7-8 góð ár koma önnur 7-8 magrari og svo koll af kolli. Við getum ekki reiknað með því að þetta hagsvaxtarskeið vari endalaust og þurfum að búa okkur undir það.

Hver er lærdómsríkasta vinna sem þú hefur haft í gegnum ævina og þú telur að hafi undirbúið þig hvað mest undir þingstarfið (má ekki nefna fyrri þingstörf)?
Öll störf sem ég hef unnið hafa verið góður undirbúningur fyrir þingstörfin. Það að taka þátt í atvinnulífinu og lífinu almennt, kynnast fólki af ólíkri gerð og uppruna, er fyrirtaks undirbúningur fyrir þingstörf. Það er reyndar mikilvægt að í þau veljist alls konar fólk, meiri þverskurður samfélagsins.
25 ára reynsla sem arkitekt hefur líka reynst mér afskaplega vel; þ.e. fá hugmynd, útfæra hana og tryggja að hún verði að veruleika og heppnist vel, í samvinnu við verkkaupa, iðnaðarmenn og verkfræðinga, í sem mestri sátt við yfirvöld og almenning

Að lokum segir Logi:
Við munum standa við stóru orðin og ráðast í innviðauppbyggingu til að jafna búsetuskilyrði í landinu.

Sjá einnig:

Oddvitar í nærmynd – Benedikt Jóhannesson situr fyrir svörum

Oddvitar í nærmynd – Arngrímur Viðar Ásgeirsson í Bjartri Framtíð situr fyrir svörum

Oddvitar í nærmynd: Einar Brynjólfsson í Pírötum situr fyrir svörum


UMMÆLI

Sambíó