Vinna og vélar

Oddvitar í nærmynd – Umdeild skipulagsmál Akureyrarbæjar, hvað ætlið þið að gera í því?

Nú styttist óðfluga í bæjarstjórnarkosningar og því mikilvægt að kjósendur kynnist frambjóðendum sem best. Norðurland vildi leggja sitt af mörkum og tók stutt viðtöl við oddvita allra flokkanna sem eru í framboði á Akureyri. Í samstarfi við Kaffið verða niðurstöðurnar birtar hér í Kosningakaffinu.

Það getur verið erfitt að gera upp hug sinn hvern á að kjósa. Mörgum finnst baráttumál flokkana vera svipuð og erfitt að gera upp á milli. Oftar en ekki geta frambjóðendur í stjórnmálum fest sig í að tala um hvað má bæta, hvað væri draumamarkmið en ekki nákvæmlega hvernig á að bæta hlutina og ná þessum markmiðum. Það er gefið að allir flokkarnir vilja gera betur fyrir bæinn á mörgum sviðum en hvernig ætla þeir að gera það? Hvað aðskilur flokkana?
Frambjóðendur voru allir spurðir sömu krefjandi spurninganna og niðurstöðurnar má sjá hér að neðan:

Skipulagsmál Akureyrarbæjar eru og hafa oftar en ekki verið mjög umdeild innan bæjarins. Bæjarbúar ekki alltaf á eitt sáttir og gagnrýnisraddir má heyra víða með margt skipulagið. Telur þú að eitthvað þurfi að bæta í þessum efnum? Ef svo er, hvað?

FRAMSÓKN: Það er rétt að skipulagsmál verða oft umdeild sem má m.a. rekja til skorts á upplýsingum. Við höfum á yfirstandandi kjörtímabili aukið mjög samtal og samráð við íbúa í skipulagsmálum en að sjálfsögðu viljum við alltaf gera betur. Mikilvægt er að ná til fólks í byrjun skipulagsferilsins þannig að sjónarmið íbúa komist betur að í upphafi og við þurfum að leita allra leiða til að vekja áhuga fólks á þeim tímapunkti.

L-LISTINN:
Skipulagsmál eru þess eðlis að það er auðvelt fyrir alla bæjarbúa að mynda sér skoðun, mikil vinna hefur verið lögð í nýtt aðalskipulag bæjarins, sem allir flokkar náðu saman um og sýnir framtíðarsýnina eins og hún er í dag. Skipulag er hins vegar lifandi plagg sem getur tekið breytingum í samræmi við vilja bæjarbúa á hverjum tíma. Við í L-listanum viljum þó auðvelda fólki samskipti við skipulagsvaldið með því að einfalda og setja fram með skýrum hætti þá ferla sem nauðsynlegt er að fylgja.


MIÐFLOKKURINN :
Þetta er gríðarlega stór málaflokkur og kannski aldrei hægt að gera svo öllum líki. Það þarf að byrja á því að koma á samtali milli hagsmunaaðila og einfalda regluverk. Ég spyr mig stundum að því hvort fegurðin sé horfin úr skipulaginu.


PÍRATAR: Hvað hefði sparast mikill tími og peningur ef þrenging Glerárgötu hefði bara verið sett í íbúakosningu inn á vefnum betriakureyri.is?

Eina leiðin til þess að ná endanlegri sátt er að færa stefnumótun og áætlanagerð í skipulagsmálum út af skrifstofunni og í hendur bæjarbúa. Allra bæjarbúa, ekki einstaka hagsmunaaðila. Aðkoma almennings að mikilvægum þáttum eins og þessum er verðmæt og tími til kominn að fara að nýta hana. Framkvæmdir og skipulag á að vera í takt við vilja fólksins.


SJÁLFSTÆÐISFLOKKURINN:
Gagnrýni á skipulagsmál hafa verið af mörgum toga. Það hefur verið gagnrýnt að skipulagssvið sé of upptekið af eftirliti í stað þess að sinna þjónustu við fyrirtæki og íbúa. Þessu þarf að breyta. Það er einnig of mikið um að verið sé að breyta deiliskipulagi og þá sérstaklega í nýjum hverfum. Það leiðir hugann að því hvort of lítið sé hlustað á hagsmunaaðila þegar skipulagið er unnið upphaflega. Það hefur ýmislegt verið bætt í þessu ferli á undangengum árum en það má gera betur.

SAMFYLKINGIN: Ég tel hiklaust að upplýsingagjöf um skipulagsmál þurfi að bæta og huga þurfi að því hvernig hægt sé að gera upplýsingarnar aðgengilegri og helst myndrænar. Í fundargerðum eða auglýsingum um breytingar á skipulagi er oft og tíðum vísað í reglugerðir og staðlaður texti fylgir, sem vekur ekki athygli og áhuga bæjarbúa. Slík framsetning höfðar jafnvel aðeins til verktaka, arkitekta og íbúa í næsta nágrenni við fyrirhugaðar breytingar. Með því að setja hlutina fram á mannamáli, með myndum og jafnvel myndböndum, er hægt að bæta upplýsingagjöf og þar af leiðandi opna fyrir upplýstari og gagnrýnni umræðu.


VINSTRI GRÆN:
Það þarf að auka aðkomu íbúa á fyrstu stigum vinnunnar því þegar búið er að setja fram fullmótaðar tillögur er erfitt fyrir íbúa að hafa áhrif á þær. Þess vegna er ferlið eins og það er núna fremur kynningarferli en samráðsferli, á þessu tvennu er mikill munur. Í samráðsferli er áherslan fyrst og fremst á að greina þarfir og óskir íbúa síðan tekur bæjarkerfið við og vinnur að lausnum og leiðum til að koma til móts við þær. Fyrst og fremst þarf viljann til að vinna með íbúum.

Sjá einnig:

Oddvitar í nærmynd – Hver verður næsti bæjarstjóri?

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó