Öldrunarheimili Akureyrar tilnefnd til evrópskra verðlauna

Öldrunarheimili Akureyrar tilnefnd til evrópskra verðlauna

Öldrunarheimili Akureyrar eru tilnefnd til evrópskra verðlauna fyrir frumkvöðlastarf og samfélagslega nýsköpun í opinbera geiranum. Tilnefningin byggir á nýsköpunarverkefni um rafrænt umsjónarkerfi með lyfjaumsýslu hjá Öldrunarheimilum Akureyrar (ÖA). Verkefnið hófst árið 2014 með samstarfi ÖA og tveggja einkafyrirtækja, Þula – norrænt hugvit ehf. og Lyfjaver ehf. Frá þessu er greint á vef Akureyrarbæjar.

Hugbúnaður sem gengur undir nafninu ALFA var tekin til prófunar hjá ÖA og verkefnið svo framlengt vegna frekari þróunar hugbúnaðarins. Með nýsköpunarverkefninu sáu samstarfsaðilar fram á framleiðniaukningu, hagræðingu, aukin gæði og öryggi í meðferð lyfja, minni sóun vegna fyrninga og bætt starfsumhverfi. Síðari hluti þessa verkefnis er enn í gangi og lýkur í árslok 2017en þar er unnið að sjálfvirknivæðingu pantana og lyfjaskammtana, innleiðingu á rafrænni skráningu á eftirritunarskildum lyfjum og rafrænu lyfjakorti sem er nýjung innan heilbrigðisþjónustunnar varðandi lyfjaumsýslu.

Meginmarkmið samstarfs ÖA, Þulu og Lyfjavers er að þróa ALFA kerfið og aðlaga það að þörfum dvalar- og hjúkrunarheimila þannig að samskipti milli þeirra og apóteka verði með rafrænum hætti. Tilefni þessa frumkvöðlastarfs og nýsköpunar er að bæta og rafvæða meðhöndlun lyfja sem hefur að stórum hluta verið unnið handvirkt og á pappírsformi, með því óhagræði og villuhættu sem því fylgir.

Góður árangur í ALFA verkefninu byggir á þverfaglegu samstarfi, þekkingu og reynslu starfsfólks innan ÖA, Þulu og Lyfjavers. Nú þegar liggja fyrir úttektir sem staðfesta tímasparnað, bætta nýtingu og hagkvæmara birgðahald, betra og öruggara upplýsingaflæði, aukið öryggi og bætta þjónustu fyrir íbúa og meiri starfsánægju. Samhliða hefur lyfjakostnaður ÖA lækkað á tveimur árum um 15% .

Tilnefning ÖA til viðurkenningar er í flokki um „aðgerðir í tengslum við samfélagslega ábyrgð fyrirtækja og stuðla að frumkvöðlastarfsemi“ og er á vegum Enterprise Europe Network (EEN), en það er samstarfsvettvangur 600 aðila í 60 löndum og er stærsta tækniyfirfærslu- og viðskiptanet sinnar tegundar (www.een.is).

Tilnefning ÖA varðar áherslur í opinberri þjónustu. Fyrir það fyrsta eru samfélagslegir frumkvöðlar og fyrirtæki að vinna að lausnum þar sem samfélagslegur ávinningur er meginmarkmiðið en hagnaðarmarkmið í öðru sæti. Í öðru lagi er verið að nýta tækni til framþróunar og nýta snjallar lausnir til að auka lífsgæði samfélagsins á sjálfbæran hátt. Í þriðja lagi felur verkefnið í sér nýjungar á sviði stjórnunar þar sem mannauðsstjórnun, sjálfvirknivæðing og gæðamál eru viðfangsefni og viðhorf í vel reknum fyrirtækjum og stofnunum. Í fjórða lagi er notagildi og yfirfærslugildi, því með breytingu á viðhorfum, verklagi og skipulagi breytast innviðir og áherslur í opinbera og einkageiranum með auknu gegnsæi og jafnræði á sem flestum sviðum.

Með tilnefningunni er ÖA tilnefnt af hálfu Íslands og getur af því tilefni flaggað árangrinum með „2017 EEPA National winner“ á heimasíðu sinni og öðrum miðlum. Niðurstaða samkeppninnar verður síðan kynnt á verðlaunaafhendingu sem fram fer í Tallinn í Eistlandi þann 23. nóvember 2017.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó