Múlaberg

Opna kálver á Akureyri: „Snýst um að gera starfsemi hótelsins sjálfbærari“Ræktunarturnar sem verða notaðir

Opna kálver á Akureyri: „Snýst um að gera starfsemi hótelsins sjálfbærari“

Hótel Akureyri stefnir á að opna Urban Farm Akureyri, eða á íslensku Kálver Akureyri, í sumar. Þar verður til dæmis ræktað kálmeti, kryddjurtir, sprettur, æt blóm og ostrusveppi fyrir gesti hótelsins og Akureyringa.

Daníel Smárason, framkvæmdastjóri Hótels Akureyri segir í samtali við Kaffið að nú sé vinna við opnunina í fullum gangi en stefnan sé sett á að opna í byrjun júlí.

„Urban Farm Akureyri er borgargarður í miðbæ Akureyrar. Öll starfsemin er innandyra, sem gerir okkur kleift að stýra öllu ræktunarumhverfi af mikilli nákvæmni. Það þýðir að við notum um það bil 90 prósent minna vatn en þegar notast er við hefbundnar ræktunaraðferðir,“ segir Daníel.

Hann segir að það þýði einnig að í afurðunum verði engin óæskileg efni eða skordýraeitur heldur bara ofurferskt og gott grænmeti, sneysafullt af næringu.

„Við munum bjóða uppá kynningar, námskeið og upplifanir þar sem við bjóðum öllum að heimsækja okkur, fræðast og gleðjast. Einnig munum við bjóða Akureyringum uppá áskriftir af blandi í poka frá kálverinu.“

Verkefnið fékk styrk frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og þá er Hótel Akureyri einnig í samstarfi við Landbúnaðarháskóla Íslands og EIM sem er þróunar- og nýsköpunardeild á sviði sjálfbærni, grænnar orku og bættrar auðlindanýtingar.

Samhliða opnun Kálversins opnar nýr veitingastaður á Hótel Akureyri (Skjaldborg – Hafnarstræti 67) sem ber nafnið SKO.

„Þar verða afurðirnar okkar framreiddar á spennandi hátt í fallegu umhverfi. Hugmyndin snýst um að gera starfsemi hótelsins sjálfbærari og að þjónusta samfélaginu okkar betur. Kálverið verður staðsett í Hafnarstræti 75 þar sem smíðuð voru leikföng á vegum Kea í gamladaga.“

Ferlinu verður deilt á samfélagsmiðlum fyrir áhugasama. Kálver á Instagram.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó