Prenthaus

Opna VAMOS á Ráðhústorgi: „Keyrum á gleði og skemmtilegheitum“

Opna VAMOS á Ráðhústorgi: „Keyrum á gleði og skemmtilegheitum“

Á næstu dögum munu þau Árni Elliot, Chloé Ophelia, Halldór Kristinn Harðarson og María Kristín opna kaffihús og skemmtistað á Ráðhústorgi 9 á Akureyri. Halldór Kristinn sagði frá þessu á Facebook síðu sinni í dag.

Halldór segir að Árni bróðir hans og eiginkona hans hafi hálfpartinn neyðst til þess að flytja heim til Íslands fyrir um tveimur mánuðum eftir átta ára dvöl í Portúgal þar sem þau voru búinn að koma sér vel fyrir í vinnu og heimili með strákana sína tvo.

„Strákarnir voru búnir að vera hjá ömmu sinni og afa á Íslandi í smá tíma yfir sumarið og festust hér vegna ástandsins, ákveðið var að koma þeim í skóla hér á Akureyri og blómstruðu þeir þar. Ástandið úti var ekki gott og ekki gífurlega barnvænt. Þau taka þá ákvörðun að pakka í töskur og leyfa strákunum að halda áfram að skína á Akureyri og setjast hér að. Mikil breyting fyrir þau og vitandi ekkert út í hvað þau væru að fara. Á þessum tíma bauðst mér það tækifæri að opna kaffihús/skemmtistað, ég var kominn á fullt í önnur verkefni en skemmtanabransann útaf þessu skemmtilega ástandi, og hafði kannski ekki alveg allan tímann í heiminum fyrir þetta, en þá tókum við ákvörun að gera þetta saman. Ég og María Kristín, Arni Elliott og Chloé Ophelia. Hér erum við í dag og munum við öll í sameiningu standa að rekstri staðarins,“ skrifar Halldór.

Staðurinn fékk nafnið Vamos sem þýðir áfram eða förum á portúgölsku. Halldór segir að það sé lýsandi fyrir það sem Árni og Chloé gerðu.

„Þau létu vaða og drifu sig heim. Þetta er fjölskylduverkefni í bland við gríðarlega góðan hóp sem kemur að þessu öllu. Vamos er lífstílsstaður sem og kaffihús/skemmtistaður sem opnar snemma og lokar seint á besta fleti bæjarins þar sem fólk kemur saman og deilir hugmyndum og lífssögum. Það verða nýjungar á morgnanna og við færum okkur yfir í suðræna stemningu seinni partinn og fram eftir. Við keyrum á gleði og skemmtilegheitum og vonum að þetta færi bænum nýjung og tilbreytingu í flóruna. Okkur hlakkar ótrúlega til að opna og sýna ykkur hvað við höfum verið að brasa síðustu mánuði,“ skrifar Halldór.

Hann óskar eftir fólki í vinnu bæði við þjónustustörf og við dyravörslu og hvetur fólk sem hefur áhuga á starfi að hafa samband.

Kynntu þér staðinn nánar á Facebook síðunni: https://www.facebook.com/Vamosaey

Sambíó

UMMÆLI