Opnunarhátíð Menningarhúss í Sigurhæðum á Akureyri 6. júní

Opnunarhátíð Menningarhúss í Sigurhæðum á Akureyri 6. júní

Á annan í hvítasunnu mánudaginn 6. júní 2022 kl 14-15 opnar Flóra ferskt Menningarhús í okkar sögufræga húsi Sigurhæðum í miðbæ Akureyrar. Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri flytja stutt ávörp og opna staðinn formlega. Kynnir er Vilhjálmur B. Bragason. Um tónlist sjá Fanney Kristjáns Snjólaugardóttir og félagar.

Í Sigurhæðum ræktum við menningararfinn og miðlum nýjabrumi í listum og menningu. Á efri hæð eru vinnustofur fyrir listamenn og hönnuði. Á aðalhæð stíga Guðrún Runólfsdóttir, Matthías Jochumsson og mörg fleiri úr menningarsögu landsins fram í sviðsljósið.

Hönnuður sýningar er Þórarinn Blöndal. Myndlistarmenn með verk í sýningu eru Jóna Hlíf Halldórsdóttir og Jón Laxdal Halldórsson.

Grafísk hönnun er í höndum Ingibjargar Berglindar Guðmundsdóttur hjá Cave Canem. Aðstoð við uppsetningu og gerð sýningar: Kristín María Hreinsdóttir, Sölvi Halldórsson og Þorbjörg Þóroddsdóttir. Um fræðslu og móttöku skólahópa sér Heiða Björk Vilhjálmsdóttir. Hlynur Hallsson er listrænn ráðgjafi. Fjölmörg önnur koma að gerð staðarins. Verkefnisstjóri og staðarhaldari nýja menningarhússins er Kristín Þóra Kjartansdóttir.

Eftir opnun verður Menningarhús í Sigurhæðum opið almenningi daglega kl 10-18 fram í nóvember. Gengið er að Sigurhæðum frá miðjum kirkjutröppum.

Menningarhús í Sigurhæðum er styrkt af Alþingi Íslendinga, Samtökum Sveitarfélaga á Norðurlandi Eystra og Menningarsjóði KEA. Sigurhæðir eru í eigu Akureyrarbæjar.


UMMÆLI