Örfá barnaleg kvíðaráð

Inga Dagný Eydal skrifar:

Mig grunar að mörgum öðrum kvíðaboltum (mér leiðist orðið sjúklingur) sé farið eins og mér að kvíðinn er nærtækastur í desember, mánuði ljóss og friðar. Ég er allavega þannig að í desember ná allar slæmar fréttir meira til mín en alla jafna. Myrkrið, veðrið, fréttirnar….allt veldur þetta mér kvíða. Mér finnst eins og ljósið og friðurinn sé víðs fjarri og fer að hræðast verulega að eitthvað komi fyrir fólkið mitt, ótti sem er svona meira í bakhöfðinu á öðrum árstímum.

Ég hef þó alltaf verið mikið jólabarn og finnst að bernskujólin mín hafi verið dásamlegust, alltaf!  Undirbúningurinn, söngurinn með skólakórnum á elliheimilinu, litlu jólin, ferðirnar með afa að skoða jólaljósin í bænum,- allt er þetta sveipað ævintýraljóma og tilfinningarnar rifjast upp fyrir hver jól. Kannski hefur sá rétt fyrir sér sem sagði að jól fullorðinna væru endalausar tilraunir til að endurlifa bernskujólin- að því gefnu að þau hefðu verið jákvæð upplifun. Og mín voru það svo sannarlega, ég átti góða fjölskyldu og leið vel.

Ég hef hinsvegar áhyggjur af hugarró margra barna sem lifa þessi jól. Fréttir úr heiminum eru vondar og hugur barna er að svo mörgu leyti eins og hugur kvíðaboltans, ákaflega opinn fyrir öllu því sem þau heyra og sjá. Það sem foreldrarnir taka ekki eftir í erli desembermánaðar getur brennt sig í huga barnsins, fréttir af náttúruhamförum, styrjöldum, hryðjuverkum, morðum og ýmsu öðru því sem á mannkyninu dynur. Fyrir utan svo allt það sem auglýsingaflóðið öskrar á þau að þau þurfi að eiga og gera til að eiga nú gleðileg jól. Svo eiga þau að vera stillt og til friðs, því annars fá þau kartöflu í skóinn. Það er eiginlega nokkuð viðbúið að við búum til nokkra kvíðabolta framtíðarinnar!

Þegar jólin nálgast er mér nauðsynlegt að:

  •  Hætta að hlusta á fréttir

Það er nokkuð ljóst að ef eitthvað gerist sem ég verð að vita af, þá munu þær fréttir ná til mín. Hinsvegar er flest af því sem er í fréttum utan míns áhrifasvæðis og því gerir það ekkert nema gott að sleppa þeim í desember. Svo má reyna að draga úr auglýsingaflóðinu og hlusta á eitthvað gott og skemmtilegt í staðinn.

  •  Ná í skottið á birtunni

Reyna að fara út á hverjum degi þegar bjart er. Ég held að það sé öllum óhollt að fara í skóla eða vinnu í myrkri og koma heim í myrkri. Það er gott fyrir heilann og gott fyrir sálina að sjá ljósið um stund á þessum stuttu dögum þó ekki sé nema að ganga um stund í hádegishléi. Förum út!

  •  Að leika mér

Ég er svo heppin að ég á hundinn Alex sem veit ekkert skemmtilegra en að leika. Úti eða inni. Börn vita líka ekkert betra en að leika og sá sem á góðan og hlýjan útigalla, lopasokka og ullarvettlinga getur farið út að leika í öllum veðrum. Ef veðrið er of vont má leika inni, dansa, syngja, lita og púsla,- enginn er of gamall fyrir það!

  •  Gera öðrum gott

Við erum fæst í áhrifastöðum og getum kannski ekki bætt heiminn í stóru samhengi. Við getum hinsvegar reynt að gera heiminn aðeins bjartari í okkar nánasta umhverfi. Jafnvel vikið einhverjum smáaurum í pottinn hjá hjálpræðishernum eða gefið jól í skókassa og endilega hafið börnin með.

Svo má gera mikið með því að vera brosmild og kurteis við samferðamennina okkar, líka í umferðinni! Þetta með umferðina er mikil áskorun í mínu tilfelli.

Ég veit að ofantalið hljómar dálítið „einfalt og barnalegt” og ekki víst að það henti öllum. En það er stutt í hið innra barn og kannski mest á þessum árstíma þegar svo margar tilfinningar koma upp á yfirborðið. Þetta er amk. það sem skiptir máli fyrir mig og vonandi getur það hjálpað einhverjum öðrum.

Njótið aðventunnar!

Eina leiðin til að vera besta útgáfan af sjálfum sér er að gangast við sjálfum sér.

Inga Dagný Eydal er Norðlendingur á besta aldri sem starfað hefur m.a. við hjúkrun, kennslu og tónlist. Hún býr í Eyjafjarðarsveit ásamt eiginmanni og hundi og sinnir eigin endurhæfingu og sköpun s.s. í ljósmyndun og skrifum, matargerð og listmálun. Veltir gjarnan vöngum yfir tilverunni, mannlífinu og vitleysunni í sjálfri sér og skrifar niður í pistla. Pistillinn birtist upphaflega á  raedaogrit.wordpress.com/

Sjá einnig:

„Litla ljót-ævintýraleikur með söngvum”

UMMÆLI

Sambíó