Orkulitlir unglingar á Akureyri?

Orkulitlir unglingar á Akureyri?

Sala orkudrykkja á Íslandi hefur farið upp úr öllu valdi. Árið 2017 seld­ust tæp­lega 5,2 millj­ón­ir 330 ml dósa af vin­sæl­ustu orku­drykkj­un­um á Íslandi. Haft hefur verið eftir forsvarsmanni heildverslunarinnar Core sem flytur inn Nocco að “við eigum klárlega heimsmet í drykkju á Nocco ef miðað er við höfðatölu”.

Rannsóknin Ungt fólk sem framkvæmd hefur verið árlega síðustu tvo áratug af Rannsóknarmiðstöðinni Rannsókn og greining sýnir okkur að unglingar á Akureyri drekka mun meira af orkudrykkjum en jafnaldrar þeirra annars staðar á landinu. Þar kemur fram að 30% þeirra drekka orkudrykk daglega en landsmeðaltalið er um 10%. Vert er að taka það fram að 48% unglinga fædd árið 2001 á Akureyri segjast drekka einn eða fleiri orkudrykki á dag en landsmeðaltalið meðal jafnaldra þeirra er 14%. Til samanburðar sýna rannsóknir okkur að árið 2014 sögðust aðeins um 5% unglinga í 10. bekk drekka orkudrykki í einhverjum mæli.

Rannsóknin Ungt fólk sýnir einnig að unglingarnir okkar eru að sofa mun minna en þeim er hollt. Það samhliða niðurstöðum þess efnis að unglingar á Akureyri eru að drekka mun meira af orkudrykkjum en jafnaldrar þeirra annars staðar á landinu eru niðurstöður sem við sem bæjarfélag þurfum að taka mark á og skoða.

Hvað orkudrykki varðar voru þeir á fyrstu árunum markaðssettir fyrir íþróttafólk en nú er markaðsetningin að miklu miðuð að unglingum og staðsetning drykkjanna í búðum til þess fallin að það fari ekki framhjá neinum að orkudrykkir séu þar til sölu. Umbúðirnar eru oftar en ekki litskrúðugar og drykkirnir líta sakleysislega og skemmtilega út, allt gert til að heilla og selja okkur þá hugmynd að við þurfum auka orku til að komast í gegnum daginn. Þá er bara ein spurning eftir.

Hvers vegna ertu að drekka orkudrykk?
Þarftu auka orku eða þarftu bara að sofa aðeins meira, borða örlítið hollar og finna jafnvægi í hreyfingu því á meðan sumir eru að reyna of mikið á líkamann eru aðrir sem stunda enga hreyfingu sem orsakar slen og kraftleysi. Hjálpum unglingunum okkar að finna þetta jafnvægi og lítum á sama tíma í eigin barm.

Til stendur að boða til Málþings um forvarnir og velferð unglinga og barna 23. janúar 2019 sem verður nánar auglýst síðar. Allir velkomnir og foreldrar sérstaklega hvattir til að mæta.

Forvarna- og félagsmálaráðgjafar Akureyrar

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó