Múlaberg

Ótrúleg velgengni Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands sló botninn í glæsilegt tónleikár með flutningi stórvirkisins sem oft hefur verið nefnt drottning allra tónverka, Matteusarpassíu Jóhanns Sebastians Bachs.

Verkið var flutt á tvennum tónleikum þar sem hljómsveitin naut fulltingis, Kammerkórs Norðurlands, Hymnodiu og barnakóra. Þeim fyrri í Menningarhúsinu Hofi á skírdag, þar sem Matteusarpassían var jafnframt frumflutt á Akureyri. Skemmst er frá því að segja að leikið var fyrir troðfullu húsi og færri komust að en vildu. Að tónleikunum loknum lagði hljómsveitin svo land undir fót og flutti verkið í Hallgrímskirkju á föstudaginn langa þar sem sömuleiðis var leikið fyrir fullu húsi.

Óhætt er að segja að fordæmalaus velgengni hljómsveitarinnar sé ævintýri líkust og er það nokkuð sem við hjá Menningarfélagi Akureyrar erum ákaflega hreykin af.

Á yfirstandandi starfsári hefur verið uppselt á 14 tónleika hljómsveitarinnar. Sveitin hefur á sama tíma jafnframt leikið fyrir ríflega 14.000 tónleikagesti, bæði á Íslandi og í Færeyjum.

Þrátt fyrir að formleg tónleikadagskrá Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands sé nú tæmd þetta starfsárið munu meðlimir sveitarinnar langt í frá sitja auðum höndum. enda er fjöldi verkefna framundan hjá hliðarsjálfi hljómsveitarinnar, SinfoniaNord, meðal annars við upptökur á kvikmyndatónlist.

Menningarfélag Akureyrar þakkar tónleikagestum kærlega fyrir viðtökurnar á starfsárinu og lofar áframhaldandi spennandi dagskrá á næsta starfsári, sem við erum full tilhlökkunar fyrir.

Mynd og frétt: mak.is

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó