Prenthaus

„Óumdeilanlega glæsilegasta siglingahúsið á landinu“

„Óumdeilanlega glæsilegasta siglingahúsið á landinu“

Siglingaklúbburinn Nökkvi á Akureyri fékk fyrr í mánuðinum afhent nýtt og glæsilegt aðstöðuhús. Tryggvi Jóhann Heimisson, formaður Siglingaklúbbsins Nökkva, segir að húsið sé afar mikilvægt fyrir félagið og muni gjörbylta aðstöðu félagsins á allan hátt.

„Þetta gerir félaginu kleift að fara að reka starfsemi sína á ársgrundvelli og siglingatímabilið sjálft mun lengjast. Kajak og róðrabrettafólk mun ná að róa allt árið og skútusiglingar verður hægt að stunda fyrr á vorin og lengra fram á haust,“ segir Tryggvi í spjalli við Kaffið.is.

Hann segir að munurinn frá gamla aðstöðhúsinu sé mikill en þar hafi þurft að pakka öllu inn í hús fyrir haustlægðirnar og mikið umstang hafi þurft til þess að taka eitthvað út aftur. Hann segir að nýja húsið bjóði þó upp á fleiri góða hluti.

„Nú verður einnig hægt að færa allt viðhald og ýmsa fræðslustarfsemi yfir á vetrartímann. Sem gerir þá starfsmönnum og þjálfurum kleift að einbeita sér eingöngu að siglingunum á sumrin. Hingað til hefur allt viðhald farið fram í maí og  júní þannig að lykilfólk í klúbbnum er yfirleitt fast í viðhaldsvinnu á þessu tíma í stað þess að kenna eða stunda siglingar.“

Glæsilegasta siglingahúsið á landinu

Tryggvi segir aðstöðuna vera sambærilega við það sem best gerist á landinu. Húsið verði það flottasta á landinu þegar það er fullbyggt.

„Í nýju aðstöðunni eru búningsklefar, starfsmannaaðstaða svo sem fataskápar, kaffistofa og sturta, rúmgott verkstæði og svo stór bátageymsla allt upphitað. Þá er einnig smá bráðabirgða félagsaðstaða. En  endanleg félags- og kennsluaðstaða kemur í seinni áfanga hússins. Þetta er óumdeilanlega glæsilegasta siglingahúsið á landinu þegar kemur að útliti og hönnun,“ segir Tryggvi.

Hann segir einnig að eitt af því sem Nökkvi hafi umfram önnur siglingafélög á landinu sé Pollurinn og aðgengi að honum.

Mikill áhugi á siglingum á Akureyri

Það er nóg framundan hjá Siglingaklúbbnum Nökkva. Í byrjun ágúst heldur klúbburinn Íslandsmót í siglingum og í lok ágúst verður Akureyrarmót. Á næsta ári verður svo alþjóðlegt siglingamót á Rs Aero bátum.

„Það er mikil áhugi á siglingu og sjósporti á Akureyri og við eigum von á að sá áhugi aukist á næstu árum. Nökkvi er elsti starfandi siglingaklúbbur landsins og annar af stærstu klúbbum landsins. Barnanámskeið félagsins eru alltaf vel sótt og reyndar þannig að fyrri hluta sumars höfum við ekki búnað né mannskap til að sinna öllum sem vilja komast að, einnig er öflugur keppnishópur barna og unglinga. Félagið er þó að mestu almenningsíþróttafélag með áherslu á útivist og hreyfingu fyrir alla aldurshópa. Yngstu virku félagarnir eru 7 ára og elstu á áttræðis aldri,“ segir Tryggvi.

Hann segir að nú megi gera ráð fyrir því að stórir hópar fullorðinna sem stunda siglingar í Eyjafirði fari nú að skila sér heim til Akureyrar fyrst að aðstaðan sé orðin betri.

„Þessir hópar hafa verið dreifðir um fjörðinn enda hefur klúbburinn ekki haft tök á að bjóða þessu hópum upp á neina alvöru aðstöðu. Við eigum von á að þessir hópar fara að skila sér heim og þau eru þegar byrjuð að streyma til okkar.
Við búumst við að bæði verði aukning á starfsemi en ekki síður að gæði starfsins batni, enda hefur farið  ótrúlega mikil orka og fjármunir í það aðstöðuleysi sem við höfum búið við. Þó má aldrei gleyma því að félög eru alltaf fólkið sem starfar í þeim hvort sem maður býr við góðan kost eða slæmann,“ segir Tryggvi að lokum.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó