#pepsi17

Almarr Ormarsson gerir upp tímabilið hjá KA:

Ég var beðinn um að skrifa smá pistil um knattspyrnusumarið sem var að líða, svona frá sjónarhorni okkar leikmanna. Ég get að vísu ekki talað fyrir hönd Guðmanns, enda hef ég hvorki komið til Barcelona né Amsterdam.

Það má segja að tímabilið okkar hafi byrjað fyrir um 11 mánuðum þegar Tufa sendi á okkur 11 mánaða og tveggja vikna æfingaplan. Þar fór fremst í flokki sérstakt serbneskt styrktarkerfi sem við stunduðum í 3 mánuði samfleytt en það átti að koma í veg fyrir öll helstu meiðsli. Það er óhætt að segja að það hafi svínvirkað á okkur leikmennina. Reyndar af frá töldum Steinþóri, Guðmanni, Hrannari, Darko, Baldvini, Halldóri, Archie, Davíð, Ásgeiri, Callum, Daníel, Aroni Degi, Emil og að sjálfsögðu undirrituðum. En annars voru allir heilir í sumar.

Meðfram styrktaræfingunum stunduðum við líka hefðbundnari knattspyrnuæfingar en þar vill Tufa yfirleitt hafa allt með bolta, nema sumt án bolta. Við hlupum til Sampdoria, fengum grindarverki af frjálsíþróttagrindum, tókum smá speed og svo má ekki gleyma uppáhaldsæfingu allra: „Bara hafa gaman“.

Í janúar var komið að hinu geysivinsæla Kjarnafæðismóti. Okkur gekk bara ágætlega í riðlinum, unnum til dæmis KA 3 og stóðum lengi vel í Magna mönnum. Úrslitaleikurinn er sjálfsagt leikur sem margir KA menn vilja gleyma svo ég ætla ekkert að minnast á að við höfum tapað honum. 6-1. Á móti Þór.

Hápunktur undirbúningstímabilsins var þó án alls efa æfingarferðin til Spánar. Og hápunktur æfingarferðarinnar var þegar Sævar Pétursson tognaði í kálfa við það að dæma æfingaleik sem varð til þess að hann gat ekkert spilað golf í ferðinni. #eimskipsmótaröðin18

Á Campo Amor æfði liðið vel en auk okkar leikmanna og þjálfarateymis voru með í för áðurnefndur Sæsi Pé, Helgi sjúkraþjálfari, Queen Anna Birna og Kristófer Páll Viðarsson en enn þann dag í dag veit enginn hvað í ósköpunum hann var að gera þar.

Þann 1. maí var svo loksins komið að því: Fyrsti leikur Knattspyrnufélags Akureyrar í efstu deild karla í knattspyrnu síðan yngstu menn muna ekki. Mikil spenna ríkti í herbúðum okkar, bæði á meðal leikmanna sem og stuðningsmanna en sumir Schiötharar muna jafnvel eftir því að hafa komið á völlinn, allavega í móðu. Það var ekki hægt að byrja Íslandsmótið mikið betur því Ungmennafélagið úr Kópavogi steinlá 3-1. Í kjölfarið héldum við áfram að ná í ágætis úrslit hér og þar og einkenndist sumarið allt af æsispennandi Evrópubaráttu hjá okkur. Já, og fallbaráttu.

Ég ætla hins vegar ekkert að minnast á Borgunarbikarinn og að við höfum tapað í fyrstu umferð. 3-1. Á móti ÍR.

Það er sennilega óþarfi að rifja upp hvern einasta leik sem við spiluðum en ég held að flestir séu sammála um að við getum öll verið stolt eftir tímabilið. Þó að úrslitin hafi verið upp og niður er það að enda í fimmta sæti ekkert slor. Verst að við enduðum í sjöunda. Það sem var kannski minnistæðast af sumrinu voru okkar ástkæru stuðningsmenn, og fóru Schiötharar þar fremstir í flokki. Án þeirra hefði allt sumarið verið okkur mun erfiðara og ekki nærri því jafn skemmtilegt. Við leikmenn viljum einnig skila þakkarkveðju til þeirra fjölmörgu sem lögðu okkur og félaginu lið í sumar, hvort sem það var við að undirbúa kaffi fyrir heimaleiki, að steikja hamborgara eða senda kvörtunarbréf á KSÍ þegar dómgæslan fór eitthvað fyrir brjóstið á þeim. Án ykkar allra væri þetta ekki hægt og við gætum ekki gert það sem okkur þykir það allra skemmtilegasta: Að spila fótbolta.

Ég þakka lesturinn,

Almarr Ormarsson

Sambíó

UMMÆLI