Origo Akureyri

Perlað af krafti í Háskólanum á Akureyri

Perlað af krafti í Háskólanum á Akureyri

Kraftur, stuðningsfélag ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur, ætlar að perla með Norðlendingum fimmtudaginn 1. febrúar í Hátíðarsal HA. Viðburðurinn er haldinn í samstarfi við Stúdentafélag Háskólans á Akureyri (SHA) og Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis.

Perlað verður nýtt Lífið er núna armband sem verður til sölu í fjáröflunar- og vitundarvakningu Krafts sem stendur nú yfir.

„Ég vil hvetja alla á Norðurlandi til þess að mæta og perla með Krafti til að styðja við bakið á ungu fólki sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendum. Félagið stóð þétt við bakið á fjölskyldunni minni þegar ég missti mömmu mína árið 2015 og ég vonast til að geta gefið því góðan liðsstyrk þegar það mætir með viðburðinn Perlað af Krafti til Akureyrar. Því þætti mér mjög vænt um að sjá góða þátttöku frá fólki á svæðinu og sérstaklega frá samfélaginu mínu hér í HA,“ segir Sólveig Birna Elísabetardóttir, forseti SHA.

Hvernig fer viðburðurinn fram?

  • Opið hús milli klukkan 17:20 og 20:00 og öll geta komið á þeim tíma sem hentar og lagt hönd á perlur í lengri eða skemmri tíma.
  • Kaffi, drykkir og kruðerí verður á staðnum.
  • Viðburðurinn er tilvalið tækifæri til að eiga skemmtilega stund með fjölskyldu og vinum, og um leið að leggja góðu málefni lið.

„Það er um að gera að fylgjast með Facebook-viðburðinum okkar þar sem við munum setja inn frekari upplýsingar. Þegar ég hóf fyrst störf fyrir SHA þá átti ég mér þann draum að halda þennan mikilvæga viðburð Krafts í húsnæði háskólans. Nú er sá draumur að rætast og þætti mér því afar vænt um að sem flest láti orðið berast svo að við getum fyllt Hátíðarsalinn,“ segir Sólveig Birna að lokum.

Sambíó

UMMÆLI