Pétur, Sesselía og Hera fastráðin við LLA

Pétur, Sesselía og Hera fastráðin við LLA

Búið er að ganga frá ráðningu stundakennara við Leiklistarskóla Leikfélags Akureyrar. Fastráðnir kennarar eru Pétur Guðjónsson, viðburðarstjóri Verkmenntaskólans á Akureyri en Pétur hefur kennt, leikstýrt, framleitt og skrifað fyrir leikhús árum saman, Sesselía Ólafsdóttir leik- og stuttmyndagerðarkona og Hera Jónsdóttir leiklistarkennari í Brekkuskóla. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Menningarfélags Akureyrar.

María Pálsdóttir, skólastjóri LLA, segir í samtali við vef Mak það hafa komið sér skemmtilega á óvart hversu margir menntaðir og reyndir leiklistarkennarar sýndu starfinu áhuga.

„Og það er með gleði og tilhlökkun sem við kynnum kennara vetrarins; reynsluboltann Pétur, Sesselíu sem hefur kennt við skólann undanfarin ár og Heru sem er nýflutt hingað norður. Þar að auki tryggðum við okkur Völu Fannell leikstjóra og leiklistarkennara í afleysingar. Við bjóðum þau öll velkomin til starfa og hlökkum til vetrarins með þeim,“ segir María á Mak.is.

Skráningarfrestur í skólann hefur verið framlengdur til 6. september en skólinn hefst 7. september. Öll kennsla fer fram í Samkomuhúsinu.

Sambíó

UMMÆLI