Plötusnúður Rihönnu, Pharrell og P.Diddy heldur uppi stuðinu í The Color Run á Akureyri

Jean Eric Von Baden

Aðra helgina í júlí fer fram The Color Run litahlaupið á Akureyri og má búast við nokkrum þúsundum manna í miðbæ Akureyrar. Litahlaupið hefur verið haldið í þrjú ár í Reykjavík og öll árin hefur danski plötusnúðurinn Jean Eric Von Baden séð um að stýra skemmtuninni. Jean Eric er enginn viðvaningur þegar kemur að því að halda uppi fjörinu á stórum viðburðum.

Jean Eric mun sjá um upphitunina fyrir hlaupið og þegar þátttakendur í litahlaupinu koma í mark. „Heilmikil skemmtun verður í endamarkinu á Ráðhústorginu þar sem danski plötusnúðurinn Jean Eric Von Baden mun halda uppi stuðinu. Það eru allir sammála um að hann sé búinn að vera algerlega frábær,“ segir Magni Ásgeirsson, skipuleggjandi The Color Run á Akureyri. „Hann kann þetta betur en nokkur annar í heiminum sennilega eftir að hafa stjórnað stuðinu í meira en 20 litahlaupum um öll Norðurlöndin. Það er alveg óhætt að segja að kunni þetta nokkuð vel.“

Á síðustu tveimur áratugum hefur hann spilað á stórum viðburðum á borð við Ólympíuleikana í Peking, í dönsku konungshöllinni og samkvæmum hjá söngvurunum Rihanna, P.Diddy, Pharrell Williams og Grace Jones og er oft kallaður Partýkonungur Danmerkur.

„Já, þetta er kjánalegur titill en það er rétt. Ég er kallaður The Party King of Denmark,“ segir Jean Eric í samtali við Kaffið.is.  Auk þess að spila reglulega á skemmtistöðum í Kaupmannahöfn er hann oft bókaður á sérstaka viðburði um allan heim, allt frá því að hita upp fyrir tónleika David Guetta í að skemmta gestum í Speedo partý Michael Phelps á Olympíuleikunum í Peking. „Þetta eru augnablikin sem maður drekkur í sig og varðveitir. Eitt kvöldið var ég með danska krónprinsinn, Rihanna, Snoop Dog og Adrian Brody öll í básnum mínum á sama tíma og vorum við öll að reyna að stjórna tónlistinni. Þetta var svolítið stressandi en minning og upplifun til að deyja fyrir.“  

Á daginn starfar Jean Eric með fólki sem á við ýmiskonar ávanavandamál að stríða og notar hann tónlistin mikið í sinni meðferð. „The Color Run er frábært tækifæri fyrir mig til að sjá hvernig tónlist virkar á spennt og allsgátt fólk að skemmta sér. Það er alveg ótrúlegt,“ segir Jean en hann er alls ekki ókunnugur Íslandi því auk þess að hafa spilað á The Color Run í Reykjavík á undanförnum tveimur árum þá hefur hann marg oft komið hingað til lands en aldrei áður hefur hann komið til Akureyrar.

„Ég einfaldlega get ekki beðið eftir að koma á Akureyri. Þegar aðstandendur The Color Run á Íslandi spurðu mig hvort ég væri laus þessa helgi þá sagði ég þeim að ég væri í raun tvíbókaður á viðburði hér í Danmörku en þegar þeir sögðu mér að þeir væru að halda The Color Run á Akureyri og vildu fá mig þangað þá samþykkti ég það áður en ég kannaði hvort ég gæti afbókað hina viðburðina. Það reddaðist síðan allt saman.“

Jean Eric verður þó ekki einn á ferð því með honum á sviðinu verða allt að átta dansarar ásamt Gretu Salóme, Magna Ásgeirs og fleirum.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó