Píeta

Potter dagurinn mikli á Amtsbókasafninu

Potter dagurinn mikli á Amtsbókasafninu

Góðvinur barna, bókasafna, já og margra fullorðinna, sjálfur Harry Potter, á afmæli á miðvikudag 31. júlí og verður þá 39 ára. Í tilefni dagsins verður pottþétt stuð á Amtsbókasafninu kl. 15:00-18:00.

Boðið verður upp á leiki og fjör í anda Harry Potter og félaga, töfrasprotaverkstæði, töfradrykkjakennslu, ratleik og Quidditch.

Hátíðarhöldin hefjast kl. 15 þar sem tekið verður á móti fólki með töfradrykkjakennslu fyrir utan bókasafnið.

Innanhúss verður búið að breyta Orðakaffi í töfrasprotaverkstæði þar sem gestum og gangandi býðst að búa til alvöru töfrasprota úr gæðaviði norðlenskra skóga.

Klukkan 16 hefjast svo æsispennandi quidditch-leikar á túninu fyrir framan safnið. Fyrir þá sem ekki vita er quidditch galdramannaíþrótt með fjórum boltum og sex háum hringlaga mörkum þar sem flogið er á kústum.

Að venju verða Fjölbragðabaunir Berta Bott á boðstólum, þorir þú að smakka baun með moldarbragði?

Rúmlega tuttugu ár eru síðan fyrsta bókin um galdrastrákinn Harry Potter kom út hjá Bloomsbury útgáfunni í London. Þær hafa selst í um 500 milljónum eintaka og er bókaflokkurinn sá mest seldi í sögunni.  Bækurnar eru þeim töfrum gæddar að bæði börn og fullorðnir hafa gaman að Harry Potter.

Potterdagurinn mikli var fyrst haldinn hátíðlegur á Amtsbókasafninu 2017 og viðburðinn sóttu hátt í 1000 manns í fyrra. Reiknað er með miklu stuði aftur á miðvikudag, þegar leikurinn verður endurtekinn.

UMMÆLI