Public House kemur til Akureyrar

Public House kemur til Akureyrar

Public House Gastropub, einn af vinsælli veitingastöðum Reykjavíkur, er á leiðinni til Akureyrar en þó aðeins í stutta stund. Public House mun vera með svokallað „pop-up“ á veitingahúsinu Strikinu þar sem þeir koma til með að taka yfir eldhúsið í kvöld og annað kvöld og bjóða upp á sinn mat og sína kokteila.

Public House hefur slegið í gegn í Reykjavík frá því að staðurinn opnaði árið 2015 en hugmyndin á bakvið staðinn er að bjóða upp smárétti með asísku ívafi sem fer sérstaklega vel með bjór en Public house býður upp á allt að 30 tegundir af bjór.

Nú í aðeins tvo daga eru tveir matreiðslumenn og barþjónn frá Public house komnir alla leið til Akureyrar með brot af því besta sem þeir bjóða upp á, sjö smárétti og fimm bestu kokteila Public house.
,,Þetta er alveg ótrúlega gaman. Mjög skemmtilegt að breyta til og sérstaklega spennandi að sjá hvernig Akureyringar taka í þetta í kvöld,“ segir Eyþór Mar Halldórsson, matreiðslumeistari og eigandi Public house, í samtali við Kaffið.

Eyþór Mar Halldórsson er vel þekktur í veitingabransanum en hann hefur tekið þátt í að stofna nokkra af vinsælustu stöðum landsins, þ.á.m. Sushi Social, Burro, Pablo Discobar og nú síðast Public House og Brewdog, sem hann á enn í dag. Eyþór er húsvíkingur og byrjaði matreiðsluferil sinn þar hér áður. Aðspurður segir Eyþór það ekki útilokað að hann opni veitingahús hér á norðurhluta landsins þó svo að það sé ekki á dagskrá eins og er. ,,Það er mjög gaman að koma hingað og það er nú ekkert útilokað en við látum pop-up-ið duga í bili allavega,“ segir Eyþór spenntur fyrir helginni.

Þessi grein er kynning. Smelltu hér til þess að skoða tilboð fyrir auglýsingar á Kaffinu.


UMMÆLI