Ráðgefandi íbúakosning framkvæmd sem íbúakönnun: „Á að auglýsa hana sem slíka en ekki villa um fyrir íbúum“

Ráðgefandi íbúakosning framkvæmd sem íbúakönnun: „Á að auglýsa hana sem slíka en ekki villa um fyrir íbúum“

Nú stendur yfir ráðgefandi íbúakosning Akureyrarbæjar um breytingu á aðalskipulagi Oddeyrar. Samkvæmt upplýsingum um kosningarnar á upplýsingasíðu Akureyrarbæjar er framkvæmd kosninganna ekki samkvæmt sveitarstjórnarlögum.

Kristín Sóley Sigursveinsdóttir, forstöðumaður upplýsinga- og þjónustudeildar Akureyrarbæjar, segir að það hefði verið nánast ómögulegt fyrir bæinn að halda íbúakosningu í strangasta skilningi reglugerðarinnar eins og sakir standa. Ákveðið hafi verið að miða framkvæmdina frekar við íbúakönnun.

Í 107. grein Sveitarstjórnarlaga segir meðal annars að atkvæðagreiðsla skuli vera leynileg og atkvæðisréttur jafn. En á upplýsingavef Akureyrarbæjar kemur fram að rekstraraðilar kosningakerfisins geti rakið einstök atkvæði í loggum að kosningu lokinni.

Á vef Akureyrarbæjar um íbúakosninguna segir: „Hægt er að fá upplýsingar um hve margir hafa kosið frá rekstraraðila kerfisins á meðan kosningin er opin en ekki er hægt að fá dreifingu atkvæða. Að kosningu lokinni geta rekstraraðilar kerfisins rakið einstök atvæði í loggum ef eitthvað kemur uppá en þeir eru bundnir trúnaði um störf sín. Við getum óskað eftir að þeir eyði þessum loggum þegar hóflegur tími er liðinn frá kosningu.“

Á vef Akureyrarbæjar segir enn fremur að ákveðið hafi verið að íbúakosningin yrði ráðgefandi en ekki bindandi og að markmiðið sé fyrst og fremst að kanna viðhorf íbúa til uppbyggingar á svæðinu. Framkvæmdin miðist því við að þetta sé íbúakönnun fremur en rafræn íbúakosning í skilningi reglugerðar um undirbúning og framkvæmd rafrænna íbúakosninga.

„Íbúakosningar í sveitarfélögum eru almennt ráðgefandi samkvæmt lögum. Sú staðreynd að kosningarnar séu ráðgefandi réttlætir því engan veginn að ekki sé farið eftir lögum og reglugerðum. Ef ætlunin er að halda könnun á að auglýsa hana sem slíka en ekki villa um fyrir íbúum. Framkvæmdin gengur líka að mínu mati í berhögg við ákvörðun bæjarstjórnar um að halda íbúakosningu,“ segir Jón Hrói Finnsson sem heldur úti upplýsingasíðu um sjónarmið sem mæla gegn breytingum á aðalskipulagi á Oddeyri.

„Reglugerð 966/2018 um undirbúning, framkvæmd og fyrirkomulag rafrænna íbúakosninga og gerð rafrænnar kjörskrár gerir mjög miklar kröfur til sveitarfélaga. Tilgangurinn er meðal annars að nýta nýjustu tækni við íbúakosningar um leið og ítrustu kröfum um leynd, réttindi og örugga framkvæmd er fullnægt,“ segir Kristín Sóley Sigursveinsdóttir, forstöðumaður upplýsinga- og þjónustudeildar Akureyrarbæjar í skriflegu svari við fyrirspurn Kaffið.is.

„Þegar bæjarstjórn hafði ákveðið að halda ráðgefandi íbúakosningu um skipulag Oddeyrar leituðum við ráða hjá sérfræðingum ráðuneytisins um það hvernig við gætum uppfyllt þessar kröfur. Niðurstaðan var sú að tæknileg þróun kosningakerfis og ferla sem fjallað er um í reglugerðinni væri ekki nægilega langt á veg komin og það væri nánast ómögulegt fyrir bæinn að halda íbúakosningu í strangasta skilningi reglugerðarinnar eins og sakir standa. Því var okkur ráðlagt að miða framkvæmdina frekar við íbúakönnun og var ákveðið að nota kannanakerfi í þjónustugáttinni sem uppfyllir allar kröfur til slíkra gerninga.“

Kristín segir að orðalagið „ráðgefandi íbúakosning“ hafði hins vegar verið samþykkt og kynnt sem slíkt frá upphafi.

„Við litum svo á að það væri ekki hagur íbúa eða verkefninu til framdráttar að breyta yfirskriftinni í „könnun“ á lokametrunum.  Rökin voru meðal annars þau að ráðgefandi íbúakosning væri í eðli sínu ekkert annað en könnun, enda er bæjarstjórn það algjörlega í sjálfsvald sett hvort tekið er mark á niðurstöðunni. Hins vegar var ákveðið að skerpa enn frekar á þessu atriði í öllu kynningarefni, til dæmis í fréttum, viðtölum í fjölmiðlum og á upplýsingasvæði verkefnisins þar sem segir ofarlega „Kosningin verður ráðgefandi en ekki bindandi. Þetta er því fyrst og fremst könnun á vilja íbúa gagnvart uppbyggingu á svæðinu“. Eins eru þessi atriði og tengsl við reglugerðina útlistuð í kaflanum „Spurt og svarað“ á upplýsingasvæðinu,“ segir Kristín.

Sambíó

UMMÆLI