Á næstu vikum verður ráðist í viðhald á malbikuðum götum á Akureyri. Samtals nemur vegalengdin sem framkvæmdir ná til hátt í þremur kílómetrum á 12 stöðum í bænum. Frá þessu er greint á vef bæjarins.
„Samkvæmt fjárhagsáætlun ársins á að verja 129 milljónum króna í viðhald malbikaðra gatna. Undir málaflokkinn falla yfirbræðslur, holufyllingar, lagfæringar á kantsteinum og hraðahindrunum og ófyrirséð viðhald. Verktími er áætlaður frá byrjun júní og fram í ágúst. Nánari tímasetningar fyrir einstakar götur liggja ekki fyrir á þessari stundu en stefnt er að því að upplýsa um framvindu og áætlun jafnóðum,“ segir í tilkynningu.
Sérstök áhersla verður lögð á góða upplýsingagjöf þegar loka þarf götum að hluta eða í heild. Athygli er vakin á heimasíðu bæjarins sem og samfélagsmiðlunum Facebook og Twitter þar sem slíkar tilkynningar má finna.
Smelltu hér til að skoða áætlaðar gatnaframkvæmdir sumarsins eftir svæðum.
UMMÆLI