Raunir íþróttaáhugamanns á Akureyri

aTgqh2QS

Arnar Geir Halldórsson skrifar

Ég heiti Arnar Geir Halldórsson. Ég er 24 ára gamall, fæddur árið 1992. Ég er Akureyringur og íþróttaáhugamaður, sérstaklega áhugasamur um boltaíþróttir. Þetta er stórhættuleg blanda sem hefur valdið mér hugarangri reglulega í gegnum ævina.

Ég ólst upp við að fá að fylgjast með fremstu handknattleiksmönnum landsins og það er mér enn í fersku minni þó ég hafi ekki verið nema fimm ára gamall þegar ,,gullaldartímabil“ KA náði hápunkti. Í KA-heimilinu á þessum tíma voru að spila kempur á borð við Robert Julian Duranona, Guðjón Val Sigurðsson, Patrek Jóhannesson og fleiri frábærir (Sergei Ziza var samt í sérstöku uppáhaldi hjá mér). Það er ekki hægt að segja annað en að stemningin hafi verið í nákvæmlega sama gæðaflokki og þessir þrír af bestu handboltamönnum Íslands í seinni tíð. Algjörlega mögnuð og ég hreifst með þó ég hafi þarna verið búinn að ákveða að helga lífi mínu að miklu leyti öðru íþróttafélagi hér í bæ, Íþróttafélaginu Þór.

Gullaldartímabili KA lauk í kringum aldamót þó KA hafi átt ágætis handboltalið næstu árin á eftir. Svo fór að halla undan fæti og að lokum var komið að sameiningu við mína menn í Þór árið 2006. Sú tilraun heppnaðist ágætlega til að byrja með og það var mjög gaman að fara í Höllina þegar Heimir Árna, Oddur Gretars, Guðmundur Hólmar og fleiri góðir léku sér að flestum liðum landsins. Þeir spiluðu frábæran handbolta fyrir framan troðfulla Höll í hverri viku. Hápunktinum var náð með deildarmeistaratitlinum 2011 (silfur í úrslitakeppni og bikar að auki). Stemningin í kringum félagið á þeim tíma algjörlega mögnuð. Hún er ekki jafn mögnuð í dag þó strákarnir standi sig ágætlega og hafi fest sig í sessi sem miðlungslið í efstu deild, nei þeir eru ekki að fara að falla í vor þó staðan líti ekki vel út núna. Handboltastelpurnar eru í B-deild en munu vonandi tryggja sér sæti í efstu deild nú í vor. Það er allt í lagi, ekki gott eins og einhver sagði.

Ég hef hinsvegar aldrei á minni 24 ára ævi upplifað það að geta rölt á völlinn og séð akureyrskt knattspyrnulið í fremstu röð á landsvísu í karlaflokki. Ég hef þurft að láta mér nægja að lesa um magnað afrek KA árið 1989 og hetjur á borð við bræðurna Þorvald og Ormarr Örlygsson. Svo ég tali nú ekki um Anthony Karl Gregory. Ég var vissulega fæddur þegar Þór var fimm stigum frá því að vinna úrvalsdeildina árið 1992 en ég var ekki farinn að labba og missti því af hetjum á borð við Bjarna Sveinbjörnsson, Sveinbjörn Hákonarson og Halldór Áskelsson þegar þeir voru upp á sitt besta í Þórsbúningnum. En sú synd. Vissulega sá ég nokkra af þessum leikmönnum á Akureyrarvelli þegar þeir voru komnir af léttasta skeiði í boltanum.

Í seinni tíð hefur gengið bölvanlega að setja saman gott knattspyrnulið á Akureyri. Jú bæði Þór og KA hafa átt sína spretti, jafnvel haldið sér í efstu deild í eitt eða tvö ár. Meira að segja bæði farið í bikarúrslit á þessari öld og mikið óskaplega sem það var gaman að fylgja Þórsurum á Laugardalsvöll sólríkan dag í ágústmánuði 2011, þó helvítis Knattspyrnufélag Reykjavíkur hafi eyðilagt partýið með ótrúlega mikilli hjálp markstanganna.

Því miður er ekki margt sem bendir til að þetta muni breytast í náinni framtíð. En bíðum við. Á Akureyri er þó eitt knattspyrnulið sem hefur rækilega fest sig í sessi í allra fremstu röð á landsvísu. Sameiginlegt kvennalið Þórs/KA er eina lið landsins í kvennaboltanum sem hefur endað í einu af fjórum efstu sætum úrvalsdeildar á hverju tímabili frá árinu 2008. Ég þreytist ekki á þessari staðreynd því hún er algjörlega mögnuð. Raunar er Þór/KA eina knattspyrnuliðið utan suðvesturhornsins sem hefur náð einhverjum stöðugleika í efstu deild hér á landi á þessari öld og er þá sama hvort litið er til karla- eða kvennaknattspyrnu.

Árangursleysið einskorðast ekki við akureyrska knattspyrnu. Það hefur reynst erfitt að tefla fram öflugu liði í hinum boltagreinunum um allt land utan suðvesturhornsins. Ég hef ekkert komið inn á körfuboltann í þessari grein en þar virðist vera sem Sauðkrækingar séu ansi nálægt því að ná að festa sig í sessi í fremstu röð á landsvísu í karlakörfubolta og er það vel. Þá er rétt að taka fram að einnig horfir til betri tíðar í körfuboltanum hjá Þór, bæði í karla- og kvennaflokki.

Að þessu sögðu spyr ég; Er ekki einkennilegt að vilja rugga við bátnum hjá jafn öflugu liði og Þór/KA er, sér í lagi þegar hugsað er til þess hve fáranlega erfiðlega öllum öðrum hefur gengið að setja saman samkeppnishæft íþróttalið utan suðvesturhornsins og er þá sama hvort litið er til fótbolta, handbolta eða körfubolta. Árangur í íþróttum er nefnilega að töluverðu leyti byggður á reynslu og sterkri hefð. Kvennaráði Þórs/KA, sem skipað hefur verið dugmiklu fólki úr báðum félögum nota bene, hefur tekist einstaklega vel til við að skapa þessa hefð og mjög góða umgjörð á undanförnum árum.

Öllum er frjálst að hafa sína skoðun. Mín er sú að það er undarlegt að vilja ekki frekar styðja við og styrkja starf sem er öflugt fyrir og vilja frekar fara af stað með sitt eigið og þar af leiðandi í beina samkeppni við hinn aðilann, ekki bara á vellinum heldur líka þegar kemur að rekstri. Ég óttast að það muni hafa þær afleiðingar í för með sér að við fáum enn fleiri akureyrsk íþróttalið sem eru í besta falli í meðallagi á landsvísu. Það er þróun sem mér hugnast ekki því ég sem Akureyringur og íþróttaáhugamaður vil gjarnan eiga möguleika á því að fara á völlinn og sjá það besta sem er í boði í íslensku íþróttalífi hverju sinni, Akureyringar eiga skilið að fara á völlinn og sjá sitt lið geta keppt við þau bestu af alvöru. Það hefur Þór/KA gert níu ár í röð og ætti því frekar að taka starfið til fyrirmyndar í stað þess að gera á því stórtækar breytingar.

Flaggskip akureyrskrar knattspyrnu undanfarin ár.

Flaggskip akureyrskrar knattspyrnu undanfarin ár.


UMMÆLI