Rekstraraðilar á Akureyri ósáttir við Akureyrarstofu

Rekstraraðilar á Akureyri ósáttir við Akureyrarstofu

Davíð Rúnar Gunnarsson, eigandi Viðburðarstofu Norðurlands, segir á Facebook í dag að Akureyrarbær notist sífellt meira við þjónustu fyrirtækja frá Reykjavík til þess að kaupa þjónustu á viðburðum í bænum.

Færsla Davíðs hefur vakið mikla athygli en þar segir hann: „Og enn og aftur eru notuð tæki og tól frá Reykjavík og Akureyskum fyrirtækjum ekki boðið að taka þátt í neinum viðburðum à vegum Akureyrar stofu.“

Davíð Rúnar hefur rekið Viðburðarstofu Norðurlands undanfarin ár og mikið komið að markaðsstarfi viðburða og fyrirtækja í gegnum tíðina.

Hann segir í samtali við Kaffið.is að auk hans fyrirtækis séu að minnsta kosti þrír aðrir aðilar að bjóða upp á hljóðkerfi í bænum. „Bærinn hefur ekki verið að bjóða okkur að taka þátt í þeirra verkefnum sem er auðvitað stórfurðulegt,“ segir Davíð í samtali við Kaffið.is.

„Það eru sirka 4 ár síðan að Akureyrarstofa hætti að biðja um tilboð í verkefnin og Reykjavíkur fyrirtæki virðast fá öll stóru verkefnin og við fáum eitt og eitt lítið verkefni.“

Þórgnýr Dýrfjörð, framkvæmdastjóri Akureyrarstofu segir að í tilfelli Jónsmessuhátíðarinnar um helgina sé um misskilning að ræða. Tæki og tól hafi ekki verið flutt að sunnan.

„Það er það hljóðkerfaleigan Exton, sem hefur lögheimili í Reykjavík, sem sá um þjónustuna við Jónsmessuhátíð um helgina. Fyrirtækið á hins vegar húsnæði hér, heldur úti tækjalager og er með starfsmann í fullu starfi sem býr og starfar á Akureyri,“ segir Þórgnýr í svari við fyrirspurn Kaffið.is.

„En í þessari umræðu fengum við líka gagnrýni fyrir að óska ekki alltaf eftir verðtilboðum þegar kemur að því að leita eftir þjónustu fyrirtækja í þessum geira hér í bæ og þá gagnrýni megum við taka til okkar og munum gera það,“ segir Þórgnýr.

Sambíó

UMMÆLI