Rekstur Akureyrarbæjar 2021, eigum við nóg?

Rekstur Akureyrarbæjar 2021, eigum við nóg?

Þórhallur Harðarson skrifar:

Það var jákvæð rekstrarniðurstaða Akureyrarbæjar sem kynnt var á bæjarstjórnarfundi 12. apríl sl. A-hlutinn var með 318 m.kr. rekstrarafgangi í staðinn fyrir áætluðum um 1.446 m.kr. halla 2021. Starfsmenn og stjórnendur bæjarins eiga mikinn heiður skilið fyrir niðurstöðu í liðum um heildaryfirlit um rekstur, er ánægjulegt að sjá að rekstur málaflokka, stofnana og fyrirtækja sveitarfélagsins er að mestu á áætlun og með viðunandi eða góðan rekstur m.v. áætlun. 

Þegar rýnt er í ársreikninginn er mestan árangur að finna í góðri ávöxtun lífeyrissjóðshlutans auk hækkunar á útsvarstekjum. Ávöxtun lífeyrissjóðshlutans er alltaf vænt og hálfgert lottó, sem féll með okkur nú og spurning hvort að rétt sé að færa á þann veg sem gert í uppgjöri bæjarins. Hinn hlutinn eru útsvarstekjur og fjölgun íbúa. Auknar útvarstekjur bæjarins má útskýra að einhverju leyti að fyrirtækjum var veittur greiðslufrestur árið 2020 og komu þau til greiðslu 2021, ríflega 300 m.kr.

Mitt mat er að við sem sveitarfélag verður að reyna halda auknum kostnaði t.d. starfsmanna kostnaði niðri á móti fjölgun íbúa og auknum útsvarstekjum. Þannig aukum við þá fjármuni sem bæjarfélagið hefur til umráða til að setja í önnur verkefni. 

Að lokum er einn liður en það eru greiðslur vaxta, leiga á peningum, en við erum að greiða um 1.000 milljónir króna eða 1 milljarð í vexti, sem er eitt stykki leikskóli svipaður og Klappir. Það eru í kringum 4% vextir ef ég er að reikna rétt. Það er ansi há upphæð og þurfa framkvæmdir, eignakaup eða slíkt að vera með meiri arðsemi en vaxtagreiðslur til að réttlæta lántöku. Hér er liður sem vert væri að horfa í og greina betur. 

Við Sjálfstæðismenn viljum áframhaldandi aðhald í rekstri bæjarins og jákvætt að sjá að  samstarf allra flokka skilaði sér í eins góðri niðurstöðu og raun bar. Þrátt fyrir gott ár 2021 gefur það ekki tilefni til mikilla viðbótarútgjalda nema þau séu fjármögnuð með sölu eigna, lóða eða skynsamlegri lántöku á lánum þar sem vextir eru undir arðsemi verkefnisins. 

Eigum við nóg af peningum? Nei, en staðan er betri en reiknað var með. 

Þýðir það að við getum aukið við í rekstri bæjarins? Nei, ekki eins og staðan er nú. Við þurfum að auka tekjur umfram gjöld.

Verðum við að hætta framkvæma? Nei, Akureyrarbær hefur sett mikla peninga í framkvæmdir á síðustu árum og má reikna með áframhaldandi uppbyggingu og skynsömu viðhaldi bæjarins. Sala eigna og lóða getur fjármagnað að hluta til eða talsverðu leyti framkvæmdir í bæjarfélaginu. 

Þórhallur Harðarson, 5. sæti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri.

UMMÆLI

Sambíó