Rekstur Akureyrarbæjar í jafnvægi

Mynd: akureyri.is

Árshlutareikningur fyrir A- og B-hluta Akureyrarbæjar fyrir tímabilið 1. janúar til 30. júní 2017 var lagður fram í bæjarráði í gær. Árshlutauppgjörið er óendurskoðað. Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta á fyrri hluta ársins var jákvæð um 96,9 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir að rekstrarafgangur yrði 15,8 milljónir króna á tímabilinu. Afkoma samstæðunnar er því nokkru betri en áætlun gerði ráð fyrir á fyrri hluta ársins.

„Reksturinn er í góðu jafnvægi og jákvætt að sjá að niðurstaðan er betri en áætlanir gerðu ráð fyrir og afkoma í A-hlutanum nokkuð betri en á fyrri hluta árs 2016,“ segir Guðmundur Baldvin Guðmundsson formaður bæjarráðs í viðtali við heimasíðu Akureyrarbæjar.

„Við höfum lagt mikla áherslu á kjörtímabilinu að ná jafnvægi í rekstri A-hluta án þess að það bitni á þeirri þjónustu sem sveitarfélagið er að veita og ánægjulegt að sjá að það er að nást. Ég hefði að sjálfsögðu viljað sjá tekjur aukast meira en útsvarstekjur okkar eru að hækka nokkuð minna en landsmeðaltal og þá sérstaklega hjá þeim sveitarfélögum sem við berum okkur gjarnan saman við á höfðuborgarsvæðinu. Engu að síður er ég sáttur, afkoman er að batna, veltufé frá rekstri er að aukast, skuldahlutfall að lækka og mér sýnist á öllu að okkur ætli að takast það sem að var stefnt í upphafi kjörtímabils, að skila af okkur betra búi,“ segir Guðmundur Baldvin.

Nánar er fjallað um rekstrarniðurstöðuna á heimasíðu bæjarins.

UMMÆLI

Sambíó