Rekstur Hlíðarfjalls boðinn út

Rekstur Hlíðarfjalls boðinn út

Rekstur skíða- og útivistarsvæðisins í Hlíðarfjalli hefur verið boðinn út. Ríkiskaup, fyrir hönd Akureyrarbæjar, óska eftir tilboðum í heilsársrekstur svæðisins. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Akureyrarbæjar en hér er hægt að skoða auglýsingu um útboðið. 

„Markmiðið er að Hlíðarfjall verði nýtt á sem fjölbreytilegastan máta fyrir samfélagið á Akureyri og gesti allt árið um kring. Rekstraraðili þarf að gera hópum og einstaklingum kleift að notfæra sér þá aðstöðu sem er í Hlíðarfjalli, innan þeirra marka sem reglur sveitarfélagsins segja til um, hvort sem það er í formi skemmtunar, fræðslu eða á annan hátt og skapa nýjum hugmyndum grundvöll,“ segir í tilkynningu bæjarins.

Framtíðarstarfsemi og rekstur Hlíðarfjalls hefur verið til skoðunar og umræðu í stjórnkerfi bæjarins undanfarna mánuði. Bæjarráð samþykkti í fyrra að fela stjórn Hlíðarfjalls að skoða möguleika á útvistun starfseminnar. Gengið var til samninga við Ríkiskaup um utanumhald á útboði. Síðan hefur verið unnið að gerð útboðsgagna sem voru samþykkt í bæjarráði fyrr í þessum mánuði. Þá var jafnframt ákveðið að auglýsa útboðið. 

Tilboðum skal skila rafrænt í gegnum útboðskerfið TendSign eigi síðar en mánudaginn 9. ágúst kl. 12. Tilboð verða opnuð kl. 13 sama dag. 

UMMÆLI