KIA

Reykjavík Kabarett í fyrsta sinn á Akureyri – „First we take Manhattan, then we take Akureyri“

Reykjavík Kabarett í fyrsta sinn á Akureyri – „First we take Manhattan, then we take Akureyri“

Í febrúar mun Reykjavík Kabarett koma til Akureyrar í fyrsta sinn og halda sýningar í samkomuhúsinu. Reykjavík Kabarett blandar saman burlesque, kabarett, sirkuslistum, dragi og töfrum með skvettu af fullorðinsbröndurum og er púsluspil skemmtiatriða úr ýmsum áttum. Sýningin er gestasýning Leikfélags Akureyrar.

Á sýningunni mun Kabarettfjölskyldan sýna bestu atriðin sem fram hafa komið undanfarið ár. Akureyska dragstjarnan Gógó Starr og burlesquedrottning Íslands Margrét Maack spjölluðu við Kaffið.is um sýninguna en auk þeirra koma fram Lárus töframaður Maísól, Margrét Arnar leikur á harmónikku og Ungfrú Hringaná. Sýningin er bönnuð innan 18 ára og hentar ekki þeim sem eru viðkvæmir fyrir dónabröndurum eða undrum mannslíkamans.

Sigurður Heimir Guðjónsson, betur þekktur sem Gógó Starr, er Dragdrottning Íslands sem og boylesque skemmtikraftur. Gógó er einn af stofnendum og skipuleggjendum drag-listahópsins Drag-Súgur, sem hefur tröllriðið Reykvísku næturlífi síðustu tvö ár og heldur áfram að auka sýnileika hinsegin fólks í íslensku næturlífi.
Gógó ferðaðist nýlega til Bandaríkjanna, þar sem hún kom fram með nokkrum af stærstu nöfnum bandarísku drag-senunnar, og er spennt að koma með þennan Hollywood sjarma aftur á heimaslóðir.

Margrét Erla Maack er fjöllistakona sem er titluð móðir Reykjavík Kabarett. Margrét hefur sýnt burlesque víða um heim, aðallega í New York á hinum goðsagnakennda stað Slipper Room. Margrét starfaði lengi í fjölmiðlum en einbeitir sér nú að skemmtikraftslífinu, auk þess að vera á milljón að æfa Rocky Horror í Borgarleikhúsinu. Samhliða sýningum Reykjavík Kabarett á Akureyri verður hún með námskeið í Átaki í magadansi, Bollywood og burlesque.

Margrét er listrænn stjórnandi og framleiðandi Reykjavík Kabarett. Hún kynntist Burlesqe forminu í New York árið 2007 og hefur síðan þá komið reglulega fram með Reykjavík Kabarett. Hún segir að besta leiðin til þess að lýsa sýningunni sé að hún sé mitt á milli íslensks þorrablóts og Moulin Rouge. „Þetta eru skemmtiatriði fyrir fullorðna, ódýr neðanbeltishúmor í bland við háklassa.“

Gógó Starr tekur undir orð Margrétar og bætir við að sýningin sé mjög fjölbreytt. „Gleði og glimmer, daður og dónaskapur, töfrar og tittlingar, fatasviptingar og fullorðinshúmor. Ég get haldið áfram í allan dag!“

Gógó hefur dreymt um að sýna á Akureyri alveg frá því að hún flutti héðan.  „Alveg frá því að ég flutti suður og fór að taka þetta skemmtikrafts-starf fyrri alvöru, þá hefur mig dreymt um að koma aftur til Akureyrar með stórkostlega sýningu og langar að sýna hversu glæsilegt og einstakt fjöllistafólk má finna hér á Íslandi. Svo ég er ekkert smá spenntur að koma heim og sýna hvað í mér býr.“

Margrét segir að það verði gaman fyrir Akureyringa að sjá Gógó Starr í sínu náttúrulega umhverfi. Hún segist spennt fyrir því að sýna í Samkomuhúsinu og að samstarfið við Leikfélag Akureyrar hafi verið jákvætt. „Ég hef lengi verið skotin í Samkomuhúsinu og það hentar sýningunni okkar fullkomlega. Við setjum sýninguna upp í ljúfu samstarfi við Leikfélag Akureyrar. Svo bara eins og segir í laginu: First we take Manhattan, then we take Akureyri.“

Sýningin á Akureyri verður fjölbreytt og Gógó segir að boðið verði upp á þvílíkan skala af áhugaverðum atriðum. Sýnd verða bestu atriði Kabarettsins frá upphafi auk nýrra atriða. Margrét segir að það hafi ekki verið auðvelt að velja úr hvaða atriði þau myndu velja en það verði mjög breiður skali. „Drag, burlesque, töfra, cabarett, sirkus… þarna verða atriði um sólbruna, rassadúska, bondageatriði með símasnúru, fullorðinsspilagaldrar, já, það er til, leisersjóv og auðvitað ástaróður til bernaissósu og íslenska smjörsins. Og alls konar fleira, við erum enn að púsla.“

En afhverju Kabarett?

 „Það eru nokkrar ástæður,“ segir Margrét.  „Við Lárus Blöndal, töframaður, stofnuðum hann því okkur vantaði leikvöll. Við vorum alltaf að skemmta fyrir annað fólk, ráðin á árshátíðir og Lárus í barnaafmæli og þess háttar þar sem ákveðnar reglur gilda, og ekki má fara yfir strikið. Við vildum því búa til vettvang til að dansa allhressilega á línunni umtöluðu. Önnur ástæða var að ég var að skemmta oft erlendis, en það var ekkert „platform“ fyrir það hérlendis nema sirkusinn, sem ég var bara í í tvo mánuði á ári. Svo áttum við fullt af vinum sem okkur fannst að þyrftu samskonar platform. Við héldum fyrstu sýningarnar í október 2016, og það seldist upp á nótæm. Svo var þetta svo gaman að við höfum haldið áfram, stækkað við okkur og fjölgað sýningum, og svo er alltaf uppselt, og 70% af gestum eru konur sem hlæja hátt.“

 „Ég á svo heiðurinn að vera fyrstur til að vera „ættleiddur“ inn í Kabarett-fjölskylduna,“ segir Sigurður/Gógó. „Á fyrstu sýningunum var ég æpandi áhorfandi úti í sal. Þar sá ég Boylesque í fyrst skipti, hjá hinum glæsilega Luminous Pariah, og áttaði mig á því að þetta var eitthvað sem ég vildi gera, og hreinlega hætti ekki að bögga Margréti fyrr en ég fékk að taka þátt. Ég vildi nýta mér þennan snilldar ‘platform’ sem einskonar leikvöll fyrir ákveðna sviðslita-útrás sem ég var ekki að fá úr Draginu- sem varð að mínum eigin Boylesque atriðum.“

Sigurður segir Kabarett vera einstakt sýningarform. „Það er svo mikil áhersla á einstaka listamenn og þeirra hæfileika, persónulegu tjáningu og hugsjón. Það sem heillar mig mest er frelsið – frelsið til að gera hvað sem ég vil á sviði, og fá algjöra sköpunargleðis-útrás með áhorfendur að fylgjast með.“

Margrét segir að það sem heilli hana mest við Kabarett sé traustið á milli fólks. „Það er enginn söguþráður, heldur röð skemmtiatriða og alltaf eitthvað nýtt að gerast, sem er fullkomið fyrir fólk með þriggja mínútna internetathyglisspan. Það sem heillar mig er traustið – ég treysti mínu fólki að búa til sín atriði og koma með eitthvað geggjað í hvert sinn sem við gerum nýja sýningu. Svo röðum við henni saman þegar við vitum hvers konar atriði við erum með. Við erum líka öll svo skotin í hvoru öðru og hlökkum alltaf til að horfa á hvort annað. Það er frelsandi að vera með í sýningu – en bera bara ábyrgð á svona 10 mínútum. Þetta er semsagt allt það skemmtilega við leikhúsið og skemmtikrafslífið, án langs æfingatímabils með fólki sem maður fílar misvel, án takmarkana og þarna er fullkomið frelsi í allan þann fíflagang sem okkur dettur í hug.“

Sýningar Reykjavík Kabarett verða í Samkomuhúsinu 9. og 10. Febrúar kl. 21. Miðasalan er á Mak.is.

UMMÆLI