Reykjavíkurflugvöllur

Reykjavíkurflugvöllur

Svavar Alfreð Jónsson skrifar:

Reykjavíkurflugvöllur hefur lengi verið stórt bitbein í íslenskri þjóðmálaumræðu. Menn hafa hnakkrifist um hann í heitum pottum vítt og breitt um landið, völlurinn hefur hleypt upp friðsælum fermingarveislum, fluttar hafa verið um hann langar og heitar ræður úr ræðustól Alþingis auk þess sem skrifaðar hafa verið margir kílómetrar af greinum um þennan umdeilda landskika.

Þó virðist ekkert breytast. Reykjavíkurborg saxar hægt og bítandi af vellinum, sama hvað tautað er í pottum, veislum, blöðum og á hinu háa Alþingi og að því er virðist algjörlega óháð yfirlýsingum stjórnvalda eða samningum sem borgin hefur gert við ríkið.

Umræðan um völlinn fer gjarnan út um víðan völl og sá kjarni máls gleymist, að hér er um samgöngumannvirki að ræða. Það er þannig til komið, að Íslendingar hafa ákveðið að hafa höfuðborg sína í Reykjavík. Fyrir peninga úr sameiginlegum sjóðum landsmanna hefur verið byggð upp öflug þjónusta í borginni sem er í þágu þeirra allra enda rekin fyrir fjármuni þeirra allra. Þar eru stofnanir sem starfa á landsvísu og miðstöð menningar, stjórnsýslu og viðskipta á Íslandi. Sennilega eru ekki margar höfuðborgir hlutfallslega jafn öflugar að þessu leyti og Reykjavík. Þar eru allar helstu stofnanir landsins, höfuðstöðvar langflestra stórfyrirtækja og aðsetur nær allra stærstu fjölmiðlanna. Detti einhverjum í hug að flytja hluta af þessum sameiginlegu verkefnum þjóðarinnar út fyrir þennan litla radíus suðvesturhornsins mætir það harðri andstöðu og upp rísa allskonar sérfræðingar sem sjá alla meinbugi á slíkum aðgerðum. Höfuðborgarsvæðið heldur áfram að soga til sín þjónustu og stofnanir landsmanna en jafnframt vinna borgaryfirvöld markvisst að því að skerða möguleika landsmanna til að nýta sér þjónustuna og heimsækja stofnanirnar sem þeir þó fjármagna og er í þeirra þágu.

Flugvöllurinn er auðvitað dýrmætt byggingarland. Það sama má segja Hovedbanegården í Kaupmannahöfn eða Waterloo Station í Lundúnaborg. Báðar þær brautarstöðvar eru dæmi um samgöngumannvirki sem tengja höfuðborgir við umhverfi þeirra og þjóð. Þeim er ætlað að greiða aðgang landsmanna að þeim miðstöðum sem þessar borgir eru. Hvort sem um er að ræða höfuðborgir á lands- eða héraðsvísu eru yfirvöld þar fús til að leggja til mikið flæmi lands undir brautarteina og stórar byggingar sem gera fólki kleift að ferðast til og frá borgunum og sækja þá þjónustu sem þar er í þess þágu.

Það á þó ekki við um Reykjavík. Þar virðist ríkja sama gamla borgaryfirlætið sem segir við landsmenn: Við viljum endilega peningana ykkar til að efla þjónustu við ykkur í borginni en við viljum helst ekki að þið getið nýtt ykkur hana.

Pistillinn birtist upphaflega á bloggsíðu Svavars: https://www.svavaralfred.net/

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó