SA Víkingar lögðu Esju í toppslagnum

Mynd: Elvar P.

SA Víkingar lögðu Esju á laugardaginn í toppslag Hertz-deildarinnar þar sem úrslit réðust ekki fyrr en í framlengingu. SA Víkingar hefðu þurft sigur í venjulegum leiktíma til að ná toppsætinu af Esju og eru því  einu stigi á eftir Esju í deildarkeppninni . SA Víkingar gætu þó enn náð toppsætinu fyrir jól þó svo að leikurinn hafi verið sá síðasti fyrir SA Víkinga fyrir jól. SR hefur nú þegar gefið leikinn sem átti að fara fram á þriðjudagskvöld og fá Víkingar því 3 stig. Esja mætir Birninum annað kvöld og fari svo að Björninn steli stigum af Esju ná SA Víkingar toppsætinu án þess að spila eins einkennilega og það kann að hljóma.

Leikurinn á laugardag var nokkuð rólegur þrátt fyrir um toppslag væri að ræða en það voru SA Víkingar sem byrjuðu leikinn betur og settu nokkuð góða pressu á Esju.  Jóhann Már Leifsson kom Víkingum í 1-0 snemma leiks og Orri Blöndal bætti við öðru marki fyrir Víkinga í yfirtölu um miðja fyrstu lotuna. Esja náði að minnka munninn í 2-1 skömmu síðar og svo stóð eftir fyrstu lotu. Esju komst betur inn í leikinn í annarri lotunni og voru sterkari aðilinn og náðu að jafna metin um seint í lotunni með marki frá Hjalta Jóhannessyni. Esja virtist svo hafa skorað þriðja markið rétt undir lok lotunnar en dómarinn sá ekki pökkinn fara yfir línuna og varð nokkur reikistefna um en sitt sýndist hverjum.

Bart Moran kom SA Víkingum yfir snemma í þriðju lotu erftir harða hríð að marki Esju. Svo virtist sem SA Víkingar myndu sigla sigrinum heim þar sem Esja átti í vandræðum með að skapa sér almennileg færi en um þrem mínútum fyrir leikslok jöfnuðu Esjumenn metinn með marki frá Petr Kubos.  Rétt fyrir leikslok skut Esjumenn svo í þverslánna á marki Víkinga og hefðu þar getað stolið sigrinum en leikurinn endaði 3-3 og fór í framlenginu.  Í framlengingunni var það svo Orri Blöndal sem kláraði leikinn með sleggju af bláu línunni svo SA Víkingar fóru með sigur af hólmi. Það var vel við hæfi að Orri Blöndal hafi klárað leikinn en hann var í gær krýndur íshokkíkarl ársins hjá Skautafélagi Akureyrar.

SA Víkingar og Esja hafa nú mæst fjórum sinnum í deildinni þar sem hvort liðið hefur unnið tvo leiki en athyglisvert er að þrír leikjanna hafa farið í framlengingu. Esja mætir Birninum annað kvöld og mega ekki misstiga sig þar sem SA Víkingar fá þrjú stig á sama tíma frá SR sem hafa gefið leikinn sökum manneklu. Þar er því enn von um rauð jól en hvernig sem fer er staða SA Víkinga í deildinni sterk og verður skemmtilegt að fylgjast með liðinu á síðari helmingi tímabilsins en næsti leikur SA Víkinga er 12. janúar þegar liðið sækir vonandi SR heim í Laugardalinn.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó