Prenthaus

Sæbjörn léttist um 33 kg á einu ári – „Ég gat ekki endalaust látið mér líða illa“

Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke er 23 ára gamall Akureyringur sem hefur gjörbreytt um lífstíl á undanförnu ári. Sæbirni fannst hann vera of þungur og ákvað fyrir rúmu ári síðan að heyra í gömlum vini sínum Páli Hólm Sigurðarsyni sem er einkaþjálfari. Síðan þá hefur Sæbjörn misst 33 kg af þyngd sinni og komið skipulagi á líf sitt.

„Ég hafði hugsað í fleiri ár að ég þyrfti að gera eitthvað í mínum málum, ég gæti ekki látið mér líða illa yfir því að vera of þungur endalaust. Oft ætlaði ég mér að gera eitthvað í mínum málum en í minningunni entist sá hugsunarháttur aldrei lengur en nokkrar klukkustundir.“

Hægt og rólega byrjaði Sæbjörn að mæta á æfingar hjá Páli. Hann segir að þó það hljómi ekki flókið hafi hann miklað það fyrir sér, hann þurfti að ýta burt hugsunum um að þetta væri of erfitt og tilgangslaust og að það hlyti að vera til auðveldari leið. Eftir tvo mánuði í þjálfun fann hann að þetta væri hægt og þá var ekki aftur snúið.

„Þegar þriðji mánuður hófst þá kom Palli með hugmynd að breyttu mataræði með skipulagi hvað og hvenær ég ætti að borða. Það var fyrst þá sem hugarfarið breyttist að einhverju ráði. Ég hætti að hanga yfir sjónvarpinu langt frameftir öllu og komst í rútínu með svefninn hjá mér. Með breyttu mataræði fann ég árangurinn koma og líðanin breyttist helling.“

Sæbjörn segir að markmiðasetning hafi verið einn lykill af árangrinum.

„Oftast náði ég settu markmiði en það kom þó fyrir oftar en einu sinni að ég náði ekki markmiðinu sem ég stefndi á. Þetta var þó alltaf í rétta átt sem hjálpaði við það að sætta sig við að maður nær ekki alltaf því takmarki sem maður ætlar sér. Hökuna upp og áfram gakk, náðu næsta markmiði.“

Hann segir einnig að það hafi verið gott að eiga góða vini að og hann hafi fundið fyrir mikilvægi þess þegar hann þurfti á að halda

„Það voru kannski ekki samskipti við félagana sem ýtti mér áfram. Ég horfði frekar í það hvernig þeir færu að þessu. Mér langaði til að vera á þeim stað sem þeir væru, ein æfing á hverjum virkum degi væri sjálfsagður hlutur. Þeir urðu fyrirmyndir mínar.“

Sæbjörn var í áhættuhópi fyrir sykursýki. Eftir tvo mánuði í þjálfun segist Sæbjörn hafa áttað sig á því að hann þyrfti að gera allt sem hann gæti til að minnka þessa áhættu og hann hefur svo sannarlega staðið við það.

Hér að neðan má sjá myndir af árangri Sæbjörns ásamt stöðuuppfærslu frá Páli einkaþjálfara hans.

Sambíó

UMMÆLI