Færeyjar 2024

Samherji og Slippurinn á Akureyri vinna saman að nýjung í íslenskum sjávarútvegiMynd: Samherji.is

Samherji og Slippurinn á Akureyri vinna saman að nýjung í íslenskum sjávarútvegi

Samherji hefur undirritað samning við Slippinn á Akureyri um smíði og uppsetningu á vinnslubúnaði í Oddeyrina EA. Búnaðurinn er blanda af hefðbundnu og nýju, en breytingarnar ganga m.a. út á að skipið verði í stakk búið til að hefja tilraunir með að koma með lifandi bolfisk að landi til vinnslu. Þeirri aðferð hefur ekki verið beitt við togveiðar áður. Þetta kemur fram á vef Samherja.

Þar segir að verðmæti búnaðarins sé á annað hundrað milljónir króna og að þetta sé alger nýjung í íslenskum sjávarútvegi.

„Samningurinn við Slippinn felst, sem fyrr segir, í vinnslubúnaði sem settur verður um borð á Akureyri. Vinnslubúnaðurinn er blanda af hefðbundnu og nýju, er þar helst að nefna nýja tegund af þvottatanki og stórum blóðgunarbrunnum sem Slippurinn hefur hannað. Blóðgunarbrunnarnir ná frá vinnsluþilfari að tanktoppi en þannig næst mikið rúmmál fyrir afla í blæðingu sem eykur gæðin. Þá verður komið fyrir krapavél frá KAPP ehf. sem bæði verður notuð til að kæla afla í vinnslu og í lest. Með þessu er lögð áhersla á blæðingu og kælingu á þeim afla sem slátrað er um borð. Hugmyndin er samt sem áður að sem hæst hlutfall afla fari lifandi í tanka og verði afhent þannig í land. Heildarverðmæti vinnslubúnaðar frá Slippnum er á annað hundrað milljónir króna,“ segir á vef Samherja.

„Verkið gengur almennt mjög vel en það eru margar pælingar í gangi því þetta er alveg nýtt fyrir öllum sem að þessu koma. Við höfum átt í góðu samstarfi við Karstensen Skibsværft og Slippinn á Akureyri og teljum að við séum komnir með góðan grunn til að prófa þessa nýstárlegu aðferð,“ segir Ingi Lár Vilbergsson vélstjóri, sem hefur eftirlit með verkinu í Danmörku fyrir hönd Samherja.

Sjá nánar: https://www.samherji.is/is/frettir/veidar-og-vardveisla-a-lifandi-fiski

Sambíó

UMMÆLI