Intersand MaxCare 12 kg | Gæludýr.is

Samningur Akureyrarbæjar við Súlur Vertical undirritaður

Samningur Akureyrarbæjar við Súlur Vertical undirritaður

Akureyrarbær og félagasamtökin Súlur Vertical hafa gert með sér samning um stuðning sveitarfélagsins við fjallahlaupið Súlur Vertical árið 2021. Samningurinn felur einnig í sér sameiginlegt markmið um þróun og uppbyggingu til lengri tíma. 

Súlur Vertical fer fram á Akureyri um verslunarmannahelgina. Það var fyrst haldið 2016 og hefur síðan vaxið ár frá ári en féll niður í fyrra af þekktum ástæðum. 

Stefnt er að því að Súlur Vertical festi sig smám saman í sessi sem vel þekktur alþjóðlegur íþróttaviðburður og verði jafnframt einn af hápunktum verslunarmannahelgar á Akureyri sem dragi fjölda gesta til bæjarins. Með þessum nýja samningi er staðfestur vilji Akureyrarbæjar til að styðja við slíka þróun. 

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri og Þorbergur Ingi Jónsson formaður Súlur Vertical undirrituðu samninginn í vikunni. Hlutverk bæjarins samkvæmt samningnum er fyrst og fremst fólgið í vinnuframlagi, ráðgjöf og annarri aðstoð við undirbúning og framkvæmd hlaupsins en félagasamtökin annast stjórn þess, rekstur og bera ábyrgð á framkvæmdinni. 

„Við höfum mikla trú á Súlur Vertical og teljum að það hafi spennandi tækifæri í för með sér. Framtíðarsýn þeirra sem standa að fjallahlaupinu fellur vel að stefnu sveitarfélagsins um að

auka áherslu á heilsutengda ferðaþjónustu og markaðssetningu á einstökum útivistarmöguleikum svæðisins. Ég hlakka til að fylgjast með viðburðinum vaxa og dafna á komandi misserum,“ segir Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri

„Frá því við héldum fyrsta utanvegahlaupið á Akureyri fyrir fimm árum hafa vinsældir íþróttarinnar aukist mikið og fjöldi iðkenda á heimsvísu margfaldast. Þetta skapar möguleika fyrir okkur sem höfum fyrsta flokks aðstöðu með fjölbreyttu landslagi, fjöllum og útivistarstígum í bakgarðinum. Við viljum byggja upp Súlur Vertical og festa Akureyri í sessi sem vöggu fjallahlaupa á Íslandi. Í þeirri vinnu er lykilatriði að hafa góða liðsmenn og því fögnum við samstarfinu við Akureyrarbæ og þökkum fyrir stuðninginn,” segir Þorbergur Ingi Jónsson formaður Súlur Vertical.   

Nánar um Súlur Vertical 2021:

Keppt verður í þremur vegalengdum þann 31. júlí 2021: 18km, 28km og 55km. Hlaupið er um stórbrotna náttúru í nágrenni Akureyrar, þar á meðal um Glerárdal og bæjarfjöllin Súlur og Hlíðarfjall. Nú þegar eru á sjötta hundrað keppendur skráðir til leiks. Þar að auki verður boðið upp á fjölskylduvæna viðburði í tengslum við keppnina, til að mynda menningarhlaup með leiðsögn um Akureyri og krakkahlaup í Kjarnaskógi. 

UMMÆLI