NTC netdagar

Samningur um öryggisvistun ósakhæfra

Samningur um öryggisvistun ósakhæfra

Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri og Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttisráðherra undirrituðu á föstudag nýjan samning um öryggisvistun ósakhæfra einstaklinga. Samningurinn varðar greiðslur velferðarráðuneytisins fyrir öryggisvistun, sem Akureyrarbær hefur sinnt fyrir ráðuneytið frá 2013, og viðeigandi meðferð sem komið getur að gagni við að draga úr þörf fyrir öryggisgæslu.

Markmið þjónustunnar er meðal annars að sinna öryggisgæslu vistaðra einstaklinga með það fyrir augum að koma í veg fyrir að þeir valdi sjálfum sér eða öðrum skaða eða tjóni. Einnig er þeim veitt aðstoð og leiðsögn í samræmi við aldur, þroska, styrkleika og þarfir, svo sem í félagsfærni, samskiptum, sjálfstjórn og öðrum þáttum sem teljast viðeigandi og nauðsynlegir fyrir velferð þeirra og vellíðan. Einstaklingar í öryggisvistun fá aðstoð og stuðning til aukins sjálfstæðis í takt við aldur og þroska og hjálp við að takast á við athafnir daglegs lífs, læra að halda heimili og lifa heilbrigðu lífi.

Úrræðið er á ábyrgð búsetusviðs Akureyrarbæjar og er byggt á hugmyndafræði þjónandi leiðsagnar sem byggir á fjórum grunnstoðum:

  • Öryggi: líkamlegt og andlegt öryggi. Að einstaklingur upplifi sig öruggan í návist starfsmanna og í umhverfinu.
  • Virðing og umhyggja: sýna skilyrðislausa umhyggja og virðing, sem felur í sér að starfsmenn gefi af sér og beri hag einstaklinga fyrir brjósti.
  • Skapa öðrum tækifæri til að sýna umhyggju og virðingu: skapa aðstæður sem leyfa einstaklingum að eiga hlutdeild í lífi annarra með gagnstæðum kynnum. Starfsmenn gefa einstaklingum tækifæri á að kynnast sér sem manneskju en ekki bara sem starfsmanni.
  • Þátttaka: þátttaka er andstæða einmanaleika. Starfsfólk getur hjálpað og hvatt einstaklinga til þátttöku í þeirra eigin lífi og í samfélaginu með því að skapa svigrúm í tíma og aðstæðum. Þátttaka einstaklinga gefur þeim tækifæri til að gera eitthvað fyrir sjálfan sig, með öðrum og fyrir aðra.

UMMÆLI