Samstarf í bæjarstjórn Akureyrar hefur byrjað vel: „Fyrst og fremst að að leggja okkur fram við að gera góðan bæ betri”

Samstarf í bæjarstjórn Akureyrar hefur byrjað vel: „Fyrst og fremst að að leggja okkur fram við að gera góðan bæ betri”

Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar á Akureyri segir að samstarf í bæjarstjórn hafi gengið vel og sé afar gott í upphafi nýs kjörtímabils. Bæjarfulltrúar á Akureyri keppast um að hrósa hvor öðrum. Frá þessu er greint í frétt RÚV.

Halla Björk segir í samtali við RÚV  að ekki hafi tíðkast neitt skítkast og bæjarfulltrúar hafi komist að því að það gangi betur þegar unnið er saman. Hún segir að það sé góð samvinna á milli meiri- og minnihluta þrátt fyrir að fólk sé ekki alltaf sammála og að í stóru málunum vilji allir stefna í sömu átt.

Í frétt RÚV eru samskipti í bæjarstjórn Akureyrar borin saman við samskipti í borgarstjórn Reykjavíkur. Þar hefur ástandið vakið athygli í fréttum en náði hámarki á dögunum þegar Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi VG, ullaði á Mörtu Guðjónsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Halla segir að samskiptin í borgarstjórn séu ekki til þess fallin að auka traust á stjórnmálum. Hilda Jana Gísladóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, tekur undir með Höllu á Facebook síðu sinni í dag.

„Þó svo að ég hafi fyrst hlegið óskaplega mikið að „ullmálinu“ þá virðast samskipti borgarfulltrúa eftir kosningar í raun vera frekar sorgleg en fyndin,” segir Hilda Jana sem er stolt af bæjarfulltrúum á Akureyri, bæði í minni- og meirihluta.

Mannvirðing í samskiptum og lausnamiðuð samtöl eru það sem ég hef upplifað hér á fyrstu mánuðum mínum í þessu hlutverki. Þó svo að við höfum og eigum væntanlega eftir að takast á um mál og útfærslur, þá tel ég að við séum að rýna til gagns og að við séum öll fyrst og fremst að að leggja okkur fram við að gera góðan bæ betri, íbúum til heilla.

UMMÆLI